Fjárlög 2005

Fimmtudaginn 25. nóvember 2004, kl. 23:08:02 (2269)


131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[23:08]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Eins og fram hefur komið þá er þessi umræða orðin ansi löng og langt er liðið á kvöldið þannig að ég mun alla vega í minni ræðu af tillitssemi við alla hina sem á eftir koma reyna að stikla á stóru og tvítaka ekki mikið af því sem fram hefur komið fyrr í dag. En í svo stóru máli eins og fjárlagafrumvarpinu er þó ekki hægt annað en að gefa sér lágmarkstíma til að rúlla yfir þau atriði sem stinga í augun.

Ég mun ekki fara mikið í einstaka greinar enda er ég síðastur af fjárlaganefndarfólki Samfylkingarinnar sem hér talar og samflokksmenn mínir, hv. þingmenn Einar Már Sigurðarson, Helgi Hjörvar og Anna Kristín Gunnarsdóttir, hafa allir talað hér og farið vel í gegnum álit 1. minni hluta og þær breytingartillögur sem við leggjum fram.

Frá því í haust er mikil vinna er að baki í fjárlaganefndinni þar sem við fjárlaganefndarmenn og -konur höfum farið yfir fjárlögin eins og þau voru lögð fram og eins og venjulega hefur komið út úr því talsverður fjöldi breytingartillagna. Mjög margir gestir hafa heimsótt fjárlaganefndina í vinnuferli hennar og við fulltrúar minni hlutans kölluðum til okkar forráðamenn þeirra stofnana sem við töldum okkur þurfa að leita upplýsinga hjá. En eins og alþjóð veit er forstöðumönnum ríkisstofnana bannað að hafa frumkvæði að því að óska fundar með fjárlaganefnd og setja fram hugmyndir sínar varðandi fjárlagagerð fyrir þær stofnanir sem þeir stýra.

Fjárlaganefnd Alþingis fer með vinnu við fjárlögin eftir að þau hafa verið lögð fram á þinginu og okkur er þannig torveldað í raun að fá sem gleggsta sýn á fjárhagsstakk stofnana og forstöðumönnum er gert erfitt fyrir að koma á framfæri fullkomlega eðlilegum og raunhæfum athugasemdum við þann fjárlagastakk sem verkefnum undir þeirra stjórn er sniðin. Svo virðist vera sem forstöðumenn megi helst ekki segja okkur sem með fjárveitingavaldið förum hver staðan er, alls ekki segja okkur hverjar tillögur stofnana voru til viðkomandi ráðuneytis og því síður hvernig viðkomandi ráðuneyti tók á þeim hugmyndum sem þar komu fram og afgreiddi óskir forstöðumanna og þá með hvaða rökum. Það virðist í raun vera eins og helst megi ekki segja hinni ógurlegu fjárlaganefnd frá því hver afdrif tillagna forstöðumanna urðu.

Til að reyna að leggja mat á það hversu raunhæfar tillögur um fjárhag hinna fjölmörgu verkefna í ríkisrekstrinum væru kölluðum við eftir upplýsingum um hver væri niðurstaða rekstrar stofnana miðað við 31. september síðastliðinn og jafnframt hver væri áætluð útkoma þessara sömu stofnana fyrir árið í heild. Tilgangurinn með þessari beiðni okkar var aðallega tvíþættur, annars vegar til að sjá út úr þessum upplýsingum hvort framlagt fjáraukalagafrumvarp væri í samræmi við það sem vænta mætti í ríkisrekstrinum og hins vegar til að hafa nýjustu tölur á að byggja við mat á fjárlögum ársins 2005 sem við erum nú að ræða í 2. umr.

Skemmst er frá því að segja að ekki höfum við fengið þessar sjálfsögðu og nauðsynlegu upplýsingar. Við urðum að fara í gegnum 2. umr. um fjáraukalög án þess að þær upplýsingar sem við teljum nauðsynlegar lægju fyrir og einnig stöndum við hér nú og ræðum fjárlagafrumvarp næsta árs án þess að hafa við höndina nýjustu upplýsingar til að byggja á. Ég hef ekki trú á því að fjármálaráðuneytið leyni okkur þessum upplýsingum. Ég segi fjármálaráðuneytið vegna þess að öll ráðuneytin sem voru beðin um þessar upplýsingar vísuðu í svari sínu til nefndarinnar í það að fjármálaráðuneytið mundi svara öllum spurningum fyrir þeirra hönd. Þá hlýtur að kvikna spurning: Hvað veldur því að við fáum ekki þessar upplýsingar? Hér veldur örugglega meira en bara venjuleg tregða framkvæmdarvaldsins til að láta umbeðnar upplýsingar í hendur á þingnefnd. Getur verið að ráðuneytið hafi ekki þessar upplýsingar handbærar? Getur verið að ástandið í bókhaldi ríkisins sé með þeim hætti að upplýsingar um rekstur hinna mörgu viðfangsefna séu ekki handbærar innan þess tíma sem öll venjuleg fyrirtæki í rekstri telja eðlilegt að hafa upplýsingar um rekstur á takteinum?

Við í fjárlaganefndinni höfum heyrt embættismenn, bæði hjá fjármálaráðuneytinu og einstökum ráðuneytum, bera sig afar illa yfir því að hin nýju hugbúnaðarkerfi sem ríkið hefur tekið í notkun virki ekki eins og til var ætlast og að mjög erfitt sé að ná út venjubundnum upplýsingum um reksturinn. Getur verið að rekstur þjóðarbúsins búi við aðstæður í bókhaldskerfum sínum sem smáfyrirtæki mundi ekki einu sinni sætta sig við? Er nema von að spurt sé þar sem oft og iðulega fáum við þau svör að þessar eða hinar upplýsingar liggi ekki á lausu vegna þess að erfiðleikar séu við að ná þeim út úr kerfinu.

Það vekur eftirtekt að ekki er neinum erfiðleikum bundið, að því er virðist, að ausa stórum fjárhæðum í rekstur þessara hugbúnaðarkerfa og í raun er full ástæða til að skoða þann þátt ríkisrekstrarins sérstaklega. Undir fjármálaráðuneytinu á bls. 410 í fjárlagafrumvarpinu koma fram eftirfarandi upplýsingar í kaflanum Skuldbindandi samningar. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Fjármálaráðuneytið hefur á síðustu árum gert samninga við einkaaðila um rekstrarverkefni sem áætlað er að nemi samtals um 814 millj. kr. á yfirstandandi ári.“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Á árinu 2002 var gerður samningur um rekstur og viðhald á nýju fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins að undangengnu útboði og er reiknað með því að árlegur kostnaður við hann verði um 220 millj. kr.“

Þetta er kostnaður við nýtt fjárhags- og mannauðskerfi. Ég verð að segja eins og er að 220 millj. kr. við rekstur á svona kerfi sem virðist ekki skila þeim upplýsingum út úr sér sem við ætlumst til eru ansi miklir fjármunir. Svo segir, með leyfi forseta:

„Undir liðnum skattavinnslukerfi eru samningar um rekstur nokkurra kerfa sem samanlagt nema um 240 millj. kr. á ári. Um er að ræða rekstrar- og viðhaldssamninga við Skýrr, samninga um vefframtal, notendaleyfi, gagnaflutninga og rekstur staðarnets fyrir skattkerfið í heild. Gera má ráð fyrir að þeir samningar sem renna út á tímabilinu verði flestir endurnýjaðir þegar að því kemur þannig að til jafnaðar verði nálægt 730 millj. kr. bundnar árlega vegna framangreindra verkefna eftir að nýtt fjárhagskerfi hefur leyst þau eldri af hólmi.“

Þarna er verið að eyða miklum fjármunum í þessi kerfi sem allir sem til okkar koma, hvort sem það eru embættismenn í ráðuneytum eða forstöðumenn stofnana, virðast tala um að ómögulegt sé að ná upplýsingum út úr. Ef þetta er svona, upplýsingar nást seint út úr kerfunum, ekki fæst það niðurbrot sem aðilar eru að leita eftir, stofnanir eru í vandræðum hver og ein með tilheyrandi kostnaði við að eiga við þessi nýju kerfi, hvernig á þá að vera hægt að byggja á bestu upplýsingum við gerð fjárlaga og fjáraukalaga? Það liggur við að maður vorkenni aumingja hæstv. fjármálaráðherra og embættismönnum hans að þurfa að starfa við þessi skilyrði og kannski er von að áætlanir hafi svolítið svikk þegar svona er í pottinn búið.

Mikil umræða fór fram við 1. umr. fjárlaga um hversu mikið væri að marka framlögð fjárlög þegar þau væru síðan borin saman við ríkisreikning sama árs þegar hann lægi fyrir. Mikil umræða hefur átt sér stað einmitt um þetta atriði í dag. Við vöktum að sjálfsögðu athygli á þeirri staðreynd að það munaði ansi miklu á niðurstöðutölum fjárlaga og endanlegri útkomu sama árs miðað við ríkisreikning. Í ráðherratíð hæstv. fjármálaráðherra hefur sú venja skapast að leggja fram frumvarp til fjárlaga sem stenst ekki þegar til á að taka. Fjáraukalög, stundum tvenn á ári, hafa síðan stoppað í stærstu götin. Samt hefur munað miklu þegar endanlegt uppgjör hefur legið frammi. Það verður þó að hæla hæstv. ráðherra fyrir það að nú kemur endanlegt uppgjör hvers árs mun fyrr en áður var. Það þýðir þá um leið að menn muna betur niðurstöðutölur fjárlaga og þar sem styttra er umliðið en áður hefur það eitthvað upp á sig að bera saman áætlaða útkomu og raunveruleikann.

Hæstv. ráðherra hefur firrst mjög við þegar þetta hefur borið á góma og nánast kallað okkur þingmenn stjórnarandstöðunnar hálfgerða vitleysinga, a.m.k. sagt fullum fetum að við séum ekki að bera saman sambærilega hluti og að við séum síðan með kúnstir til að reyna að láta hann líta illa út varðandi þau fjárlög sem hann hefur borið ábyrgð á. Það var því með nokkuð miklum feginleik sem ég las endurskoðun ríkisreikningsársins 2003 þar sem ég sé ekki betur en að Ríkisendurskoðun staðfesti að sá samanburður sem Samfylkingin hefur stundað á fjárlögum og ríkisreikningi sé sá rétti og að í raun ætti að bera þessa hluti saman nákvæmlega á þann hátt sem við höfum gert.

Í raun hefði verið markmið með þeim breytingum sem gerðar höfðu verið varðandi fjárreiður ríkisins að svona samanburður væri fær og skiljanlegur almenningi öllum. Hæstv. fjármálaráðherra er svo sannfærandi þegar hann tekur sér fyrir hendur að útskýra fyrir okkur hinum að hvítt sé svart og svart sé hvítt að maður var næstum farinn að efast um að samanburður okkar væri sá rétti. En hvað segir skýrsla Ríkisendurskoðunar um þessar reikningsskilaaðferðir? Ég leyfi mér að grípa aðeins niður í kafla 3 á bls. 17 þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ein af meginástæðum þess að ráðist var í þá heildarendurskoðun á reglum um bókhald, reikningsskil og gerð ríkisreiknings og fjárlaga sem lokið var við í árslok 1994 var að tryggja að framsetning reikningsskila ríkissjóðs leiddi til markvissari umfjöllunar um ríkisfjármál en áður tíðkaðist og að reikningsskilin yrðu auðskiljanlegri fyrir almenning. […]

Ráða má af þeirri opinberu umræðu sem að undanförnu hefur átt sér stað um niðurstöðu ríkisfjármála fyrir árið 2003 að þessi markmið hafi ekki náðst. Annað þeirra atriða sem einkum hafa verið til umfjöllunar er samanburður á fjárlögum og ríkisreikningi. Lög um fjárreiður ríkisins kveða skýrt á um að þessi tvö reikningsskil séu að fullu sambærileg, bæði hvað varðar rekstrar- og greiðslugrunn.“

Svo mörg voru þau orð. Ég ætlaði að hafa um þetta mun fleiri orð í ræðu minni en ég held að ég sleppi því. Ég sé ekki ástæðu til þess þar sem þetta hefur komið mjög skýrt fram í umræðunni í dag og ég held að ekki þurfi að leiða að því frekari rök að sá samanburður sem Samfylkingin hefur verið með á fjárlögum annars vegar og ríkisreikningi hins vegar er sá samanburður sem á að fara í, samanburður sem á fullan rétt á sér, er algjörlega heiðarlegur og hverjum manni skiljanlegur.

Það frumvarp sem við erum hér með til umfjöllunar með þeim breytingartillögum sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur gert gerir ráð fyrir 306,4 milljörðum í tekjur og augljóst af öllu að sjaldan hefur verið jafnauðvelt fyrir starfandi meiri hluta að koma saman fjárlögum þar sem tekjur hafa aukist svo mikið milli ára. Til samanburðar voru heildartekjur ríkissjóðs samkvæmt ríkisreikningi á árunum 2002–2004 sem hér segir:

Árið 2002 voru tekjur ríkissjóðs 259,2 milljarðar. Sala ríkiseigna var þá 11,7 milljarðar þannig að nettótekjur án sölu ríkiseigna voru 247,5 milljarðar.

Árið 2003, þegar búið er að draga sölu ríkiseigna frá eru tekjur ríkisins 262 milljarðar kr.

Árið 2004, á sama hátt er sala ríkiseigna dregin frá sem eingöngu var þá hálfur milljarður og þá voru tekjur ríkissjóðs 289,7 milljarðar.

Eins og áður segir, nú, árið 2005 samkvæmt því frumvarpi sem við erum að fjalla um, að frádreginni sölu ríkiseigna upp á hálfan milljarð, eru tekjur ríkisins áætlaðar 305,9 milljarðar kr.

Þegar tekjuþróunin er skoðuð kemur í ljós að ríkissjóður hefur nú tekjur sem aldrei fyrr þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir talsverðum skattalækkunum á tekjuhlið fjárlaga. Það er tiltölulega einfalt að seilast grynnra í vasa skattgreiðenda þegar niðurstaðan verður samt sem áður sú að eftir verða töluvert miklu meiri tekjur en áður var þrátt fyrir lægri skattprósentu.

Á árinu 2005, að teknu tilliti til sölu ríkiseigna, hefur ríkissjóður 58 milljörðum kr. meiru úr að spila en hann hafði fyrir þremur árum. 58 milljarðar kr. hafa bæst við tekjur ríkisins einungis á þremur árum ef við berum saman árið 2002 við árið 2005. Er einhver að vorkenna hæstv. fjármálaráðherra að reka ríkissjóð? Telja menn að það þurfi einhverja snilligáfu til að reka ríkissjóð við þessar aðstæður? (EOK: Nei.) Mætti ekki vænta þess að verulegur afgangur yrði á ríkissjóði við svona aðstæður, (EOK: Jú.) sérstaklega þegar haft er í huga að tilhneigingin hjá fjármálaráðuneytinu undanfarin ár hefur verið sú að vanmeta tekjur við gerð fjárlaga? (Gripið fram í.) Þrátt fyrir skattalækkanir bólgna tekjur ríkissjóðs út sem aldrei fyrr (EOK: Þú …) og maður hlýtur að velta fyrir sér hvað vaki eiginlega fyrir Framsóknarflokknum (Gripið fram í: Jahá.) að vera einn flokka á Íslandi við þessar aðstæður á móti lækkun á matarskatti. Ef þeir sæju nú að sér, hv. þingmenn Framsóknarflokksins, og gengju í lið með okkur hinum þingmönnunum og lækkuðu með okkur matarskattinn mundu þeir ásamt okkur hinum stuðla að lækkun matarverðs á Íslandi. Það var einmitt frétt í Ríkisútvarpinu í morgun sem vakti athygli mína og ég ætla að leyfa mér að renna yfir hana, með leyfi forseta. Fréttin fjallar um verð á matvöru á Íslandi. Þar segir:

„Matvara er 56% dýrari á Íslandi og í Noregi en að jafnaði í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Þetta kemur fram í tölum frá hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat. Jótlandspósturinn í Danmörku segir í dag að samkeppnisyfirvöld í norrænum ríkjum hafi skipað samstarfsnefnd sem eigi að leggja til úrræði um aukna samkeppni og fjölskrúðugt framboð á matvöru. Nefndin á þó ekki að skila skýrslu fyrr en í september á næsta ári. Blaðið hefur eftir Eurostat að lægsta matvöruverð á Norðurlöndum sé í Finnlandi. Þótt landið sé í Evrópusambandinu sé matvara þar þó 23% dýrari en að jafnaði í sambandinu. Í Svíþjóð sé munurinn 24%, í Danmörku 41% og á Íslandi og í Noregi 56%. Í þessum tölum“ — og nú hvet ég hv. þingmenn Framsóknarflokksins til að hlusta vel — „vegur virðisaukaskattur á matvæli þungt, hann er lægstur í Finnlandi og Svíþjóð. Hérlendis er virðisaukaskattur á matvæli ýmist 24,5% eða 14%.“

Ef ekki eru aðstæður nú, eins og ríkissjóður hefur bólgnað út, til að taka á þessu háa matarverði og leggja skerf til þess að lækka matarskattinn, hvenær eru þá aðstæður? Að mínu viti, herra forseti, skulda framsóknarmenn landsmönnum skýringu á þessari þvermóðsku sinni. Þeir hafa í raun engu svarað hér á þingi fyrir þessa óskiljanlegu afstöðu sína. Ekki nokkur maður sem velt hefur henni fyrir sér skilur hana, ekki einu sinni samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn eins og margoft hefur komið fram.

Annað sem vekur athygli í fjárlögum nú er endurtekin afskrift ríkistekna og svo virðist sem það sé nánast alveg sama hve mikið er afskrifað á hverju ári, það sé alltaf þörf fyrir að afskrifa meira og meira. Hvernig stendur á þessu? Skoðum aðeins betur hvað það er sem verið er að afskrifa. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning árið 2003 er kafli einmitt sem tekur á afskriftum ríkistekna. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hækkun niðurfærslureiknings sýnir að [það] er nauðsynlegt að endurskoða þann tekjugrunn sem birtist í ríkisreikningi. Ljóst er að áætlanir í virðisaukaskatti hefðu skekkt verulega tekjugrunninn ef ekki hefði verið gripið til þess að tekjufæra ekki 95% af áætlunum. Áætlanir eru einnig umtalsverðar í opinberum gjöldum og tryggingagjaldi. Ástæða þessa er m.a. að á virðisaukaskattskrá og álagningarskrá opinberra gjalda eru fjölmargir lögaðilar sem nú stunda enga starfsemi en fá áætlanir vegna þess að ekki er skilað inn gögnum vegna þeirra. Þessum aðilum hefur fjölgað verulega með tilkomu einkahlutafélaga. Oft er erfitt að losna við þessi fyrirtæki af skrá, sérstaklega eldri hlutafélög, þar sem forráðamenn finnast ekki og ekki er talið svara kostnaði að krefjast gjaldþrotskipta á þeim. Á meðan safna þessi fyrirtæki skattskuldum sem eru vaxtareiknaðar reglulega.“ — Það er sem sagt verið að áætla skuldir á eitthvað sem ekki er til, vaxtareikna svo þær áætlanir og færa þær tekjur allar inn í ríkisreikning. Hér segir einnig, með leyfi forseta:

„Annað sem skapar vandamál er sá tími sem tekur að ljúka gjaldþrotaskiptum. Allan þann tíma sem gjaldþrotaskipti standa yfir“ — þ.e. eftir að gjaldþrotabeiðni hefur komið fram — „eru reiknaðir dráttarvextir á skuldina sem síðan eru færðir niður í árslok sem óbein afskrift.“ — Þarna eru líka tekjur, dráttarvextir á skuldir sem fyrirtæki sem eru í gjaldþrotaskiptum, áætlanir væntanlega í mörgum tilvikum, skulda samkvæmt ríkisbókhaldi. Dráttarvextir af slíkum skuldum eru færðir inn í tekjugrunn ríkisins.

Ríkið setti á laggirnar afskriftanefnd. Hún er skipuð af fjármálaráðherra og í henni eiga sæti fulltrúar frá tollstjóranum í Reykjavík, fjármálaráðuneytinu, ríkisskattstjóra og Ríkisendurskoðun. Afskriftanefndin skilaði í maí 2004 skýrslu um störf sín á árinu 2003 þar sem gerð er grein fyrir afskriftum á því ári. Í skýrslu nefndarinnar kemur ýmislegt fróðlegt fram. Þar kemur fram að í fjölda tilvika voru beiðnir um afskrift ekki í samræmi við afskriftareglur ríkisins, innheimtumenn ríkissjóðs að biðja um afskriftir á skuldum sem ekki voru í samræmi við þær afskriftareglur sem gilda. Tekin voru nokkur dæmi um athugasemdir sem nefndin gerði við afskriftabeiðnirnar. Dæmi voru um gildar kröfur á gjaldendur sem áttu eignir, t.d. bíla, íbúðir, raðhús eða einbýlishús. Í mörgum tilfellum voru þetta eignir sem dugað hefðu margfalt fyrir skuldinni. Samt var verið að óska eftir því af innheimtumönnum ríkisins að viðkomandi skuld væri afskrifuð. Maður hlýtur að velta fyrir sér hvað sé að í svona kerfi.

Kröfur sem sagðar voru fyrndar reyndust við athugun nefndarinnar vera ófyrndar. Unnt var að beita launaafdrætti en það var ekki gert, og makainnheimtu var ekki beitt. Nú hélt maður, herra forseti, að ríkið gengi ansi hart fram við að rukka inn skattskuldir. Að minnsta kosti hefur manni virst það af þeim dæmum sem maður þekkir en svo virðist vera sem á einhverjum stöðum séu vinnubrögð ekki vandaðri en svo að verið er að afskrifa eða óska eftir afskriftum á skattskuldum þar sem viðkomandi skuldari á nægar eignir til að greiða þessar skuldir.

Það segir í skýrslunni að það hafi háð innheimtu hjá einstaklingum að engar beinar heimildir eru í lögum eða reglugerðum til að afskrifa gjöld þeirra, jafnvel þótt þeir séu gerðir gjaldþrota. Kröfurnar verða því aðeins afskrifaðar á grundvelli fyrningar eða í tengslum við lögformlega nauðasamninga við gjaldanda. Kröfur á hendur 3.917 einstaklingum og 871 lögaðila voru afskrifaðar á árinu 2003.

Beinar afskriftir á þessu ári á ríkissjóðstekjum voru 4,7 milljarðar. Í fjárlagafrumvarpinu núna er talað um að afskrifa beint 5 milljarða af tekjum sem færðar hafa verið í ríkisreikning og menn hafa verið með í tekjugrunni ríkisins. Staða niðurfærslureiknings, þ.e. reiknings þar sem óbeinar afskriftir fara fram áður en beinu afskriftirnar fara fram, var í árslok ársins 2003 29 milljarðar kr. Inni á þessum reikningi standa 29 milljarðar kr. sem áður hafa verið færðir sem tekjur í ríkisbókhaldi og metið er að muni ekki innheimtast. Til dæmis eru inni á þessum óbeina afskriftareikningi dráttarvextir og álag sem að mestu leyti er reiknað á áætlanir sem ekki eru til upp á 13 milljarða kr. Er nema von að maður spyrji: Hvers konar vitleysa er þetta?

Lögaðilarnir, hvernig gengur að innheimta af þeim? Virðisaukaskatturinn hélt maður að væri tiltölulega öflugt innheimtukerfi þar sem skila skal skýrslum á hverju virðisaukaskattstímabili og fljótlegt að sjá ef einhverjir aðilar skila ekki inn skýrslum. Hvað gera innheimtumenn ríkissjóðs þá? Athuga þeir hvað er um að vera, athuga þeir af hverju ekki koma skýrslur? Athuga þeir yfirleitt hvort viðkomandi fyrirtæki sé í rekstri eða hvort um svartan rekstur geti verið að ræða? Nei, þeir áætla og áætla.

Í skýrslunni segir að alls skuldi 1.800 aðilar tólf tímabil eða fleiri, þ.e. meira en eitt ár. Það getur ekki talist eðlilegt að áætla virðisaukaskatt á einstakling í 14 ár án þess að gripið sé til aðgerða, eins og dæmi eru um.

Það er í raun ótrúlegt að skoða þær tölur sem hér birtast, eins og hlutfall skuldenda virðisaukaskatts eftir tímabilum, að enn eru í ríkistekjum aðilar sem skulda virðisaukaskatt frá árinu 1990. Það er ekki undarlegt þó maður velti fyrir sér hvað sé um að vera í innheimtu virðisaukaskatts á Íslandi og ekki undarlegt þó að við sem horfum upp á þetta í fjárlaganefndinni fyrir hönd Samfylkingarinnar komum fram með breytingartillögur þar sem við viljum herða skatteftirlit og reyna að ná einhverju inn af þeim tekjum sem raunverulega á að greiða í skatt en ekki láta þetta reka svona á reiðanum.

Varðandi opinber gjöld og áætlanir stendur í skýrslu Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta,:

„Ekki eingöngu í virðisaukaskatti er um verulegar áætlanir skattyfirvalda að ræða. Á árinu 2003 voru skattstofnar og skattar 11.777 einstaklinga áætlaðir. Ýmist var um það að ræða að framtali var ekki skilað eða álitið var að tekjur væru vantaldar. […] Lögaðilar sem ekki skiluðu framtali eða talið var að hefðu vantalið tekjur voru tæplega 6.500 og hefur þeim fjölgað um rúmlega 100 frá fyrra ári.“

Fram kemur í fréttabréfi ríkisskattstjóra, Tíund, að 3.590 í þessum hópi hafi fengið áætlun í annað sinn og 932 lögaðilar voru áætlaðir í fimmta sinn. Verið er að áætla á þá skatt vegna þess að þeir skiluðu ekki skattframtali fimmta árið í röð. Halda menn svo að eitthvað sé að marka þær tölur sem færðar eru í ríkisbókhald sem útistandandi skuldir hjá skattaðilum?

Einnig kom fram að af þeim 13.844 millj. kr. sem lagðar voru á hagnað lögaðila, skatturinn sem lögaðilar áttu að borga, voru 4.171 millj. kr. eða þriðjungur áætlun frá skattstjóra.

Mér sýnist tvennt vera alveg augljóst af þeim upplýsingum sem þarna koma fram. Annars vegar að innheimtumenn ríkissjóðs ganga fáránlega fram í því að áætla gjöld á bæði einstaklinga og fyrirtæki sem enginn fótur er fyrir og þau gjöld síðan dráttarvaxtareiknuð og sett á þau viðurlög og álag. Hins vegar að skatteftirlit þarf að bæta verulega með kerfisbundnum hætti og fækka þeim einstaklingum og ég tala ekki um fyrirtækjum sem ekki skila lögbundnum framtölum. Losarabragur á þessu kemur einnig fram varðandi afskriftabeiðnir sem fram koma á aðila sem ættu að vera borgunarmenn fyrir skuld sinni. Það er alltaf hætta á því að eftirlit og innheimta versni þegar vel kemur í kassann þar sem þörfin fyrir krónurnar verður ekki eins brýn og annars hefði verið, en stjórnvöld mega ekki verða of feit og löt til að aðhafast nokkuð.

Eins og fram kom hjá mér erum við fulltrúar Samfylkingarinnar með tillögur um hert skatteftirlit og að settar verði í það 200 millj. kr. Við trúum því að þeir fjármunir skili sér margfalt til baka og að tekið verði að einhverju leyti á hinu svarta hagkerfi sem allir vita að er til. Ég held að öllum sé kunnugt um skattsvik sem eiga sér stað í tengslum við svarta vinnu og reikningslaus viðskipti. Hér er í raun um stuld að ræða og á honum verðum við að taka. Það gengur ekki þótt ríkissjóður fái miklar tekjur að menn horfi í gegnum fingur sér við það að svarta hagkerfið bólgni út sem aldrei fyrr. Svört vinna, reikningslaus viðskipti, ég fullyrði að allir skattgreiðendur hafa einhvern tíma á árinu hnotið um einhvers konar svarta vinnu eða viðskipti sem ekki eru gefnir út löglegir reikningar fyrir.

Herra forseti. Boðað hefur verið í aðdraganda áramóta að til standi að skera niður um 2.000 millj. kr. á næsta ári frá samþykktri vegáætlun. Maður hlýtur að spyrja hvort ekki sé eðlilegt að hugmyndir um jafnviðamikinn niðurskurð og þarna eru boðaðar verði ræddar sérstaklega á hinu háa Alþingi í tengslum við fjárlög næsta árs. Hvernig verður niðurskurðinum fyrir komið, hvaða fyrirhuguðu framkvæmdir á að skera niður eða fresta? Ég vek athygli á þeirri staðreynd að boðað er að einnig verði skorið niður um aðra 2 milljarða á árinu 2006 og hefur þá hæstv. samgönguráðherra boðað niðurskurð á framkvæmdum upp á tæpa 6 milljarða kr. á árabilinu 2004–2006. Það munar um minna í vegaframkvæmdum. Þetta verður allt hálfhjákátlegt þegar haft er í huga að ríkisstjórnin lofaði aukalega mörgum milljörðum til framkvæmda í vegamálum korteri fyrir kosningar þegar hlutirnir litu ekki vel út í skoðanakönnunum og nú er verið að svíkja það allt saman.

Einnig hefur verið farið yfir það í nokkuð mörgum ræðum hvernig sveitarfélögin standi um þessar mundir og þann mikla halla sem á þeim er. Sveitarfélög eru náttúrlega ekkert annað en íbúarnir sem þar búa og sömu skattgreiðendur og greiða skatta og skyldur til ríkisins. Staða sveitarfélaganna í samningum við ríkisvaldið er staða sem ég held að enginn sem ætlar sér að ná samningum vildi vera í. Sveitarfélögin hafa enga stöðu gagnvart ríkinu til að semja um sín mál, enda gerist ekki neitt og framkoma ríkisins í garð sveitarfélaganna vekur undrun allra þeirra sem til þekkja.

Maður skilur ekki af hverju ekkert gengur í samningunum milli ríkisins og sveitarfélaganna. Það virðast allir viðurkenna vandann nema stjórnarliðarnir sem sitja á þingi. Félagar þeirra í sveitarstjórnum velkjast ekkert í vafa um hvaða vandi er hjá sveitarfélögunum, en þeim virðist algjörlega fyrirmunað að koma félögum sínum á Alþingi í skilning um þá stöðu sem uppi er. Við hljótum að verða að taka á þessum vanda í stað þess að stinga höfðinu í sandinn eins og strúta er siður og við hljótum að reyna með einhverjum hætti að koma leiðréttingum í frumvarpið til fjárlaga ársins 2005 fyrir 3. umr., þannig að alla vega sjáist einhver vilji af hálfu ríkisvaldsins til að gera betur við sveitarfélögin en gert er.

Herra forseti. Fagnefndir þingsins gáfu frá sér álit til fjárlaganefndar. Álitin voru að mestu í sama dúr frá meiri hluta nefndanna, þ.e. litlar athugasemdir voru gerðar við fjárlagafrumvarpið sem hér liggur fyrir. Minni hluti nefndanna virtist gefa sér betri tíma til að fara yfir fjárlagafrumvarpið sem sneri að nefndunum enda fengum við vönduð og góð álit frá þeim sem þau skrifuðu.

Ég hafði bundið vonir við að efnahags- og viðskiptanefnd mundi fara vel yfir forsendur tekjuliða frumvarpsins en ég tel að sú háa nefnd hafi ekki staðið sig í stykkinu. Hv. formaður nefndarinnar ætlaði að láta það duga að hittast í nokkrar mínútur til að blessa álit sem sagði ekki neitt um þann tekjugrunn í stað þess að leita utanaðkomandi umsagnar um þær forsendur sem fjármálaráðuneytið leggur til grundvallar spá sinni um þjóðhagsstærðir. Gleymum því ekki að búið er að leggja niður Þjóðhagsstofnun og því meiri þörf en áður til að þingið fari yfir forsendur. Hv. formaður nefndarinnar hefur reyndar séð að sér með þetta og einnig að tillögur um utanaðkomandi álit séu réttmætar og sanngjarnar og vona ég að við höfum það í hendi við 3. umr. um frumvarpið.

Í frumvarpi til fjárlaga ársins 2004 lögðum við fulltrúar Samfylkingarinnar til að í heimildargrein yrði ríkinu heimilt að selja hlutabréf í Hitaveitu Suðurnesja og verja andvirðinu til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum. Þetta gerðum við vegna þess að við höfðum áhyggjur af samdrætti í atvinnu á Suðurnesjum og vildum hafa þann varnagla inni að ríkið hefði heimild til að selja hlutabréf í þessu góða fyrirtæki ef á þyrfti að halda. Ég man að framsóknarmenn á þingi firrtust nokkuð við að við skyldum vera að skipta okkur af þessu, þeir sögðust hafa ætlað að leggja fram svona tillögu. Þess vegna leggjum við ekki fram tillöguna nú til að gefa framsóknarmönnum svigrúm. Ég vona að þeir nýti það svigrúm og leggi fram þessa gömlu tillögu sína sem þeir sögðust ætla að leggja fram í fyrra.

Í lok ræðu minnar, herra forseti, ætla ég aðeins að fara í eitt lítið mál sem var til umræðu fyrr í dag og enginn skilur sem ekki hlustaði á umræðurnar þá. Við áttum orðastað, ég og hv. varaformaður fjárlaganefndar, Einar Oddur Kristjánsson, um samneysluna og hvaða forsendur hefðu verið lagðar í fjárlagafrumvarpi ársins 2004 varðandi magnaukningu samneyslu. (EOK: Raunaukningu.) Raunaukningu, raunmagnaukningu samneyslu.

Þingmaðurinn sagði að í forsendum fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2004 hefði staðið að stefnt væri að því að halda árlegum vexti samneyslu undir 2% að raungildi. Ég benti hv. þingmanni á að í frumvarpi ársins 2004 væri tafla þar sem fram kæmi að markmiðið væri 1% en ekki 2%. Ég benti honum einnig á að í frumvarpi til fjáraukalaga væri sama tafla þar sem fram kæmi að markmiðið um að samneyslan yxi ekki umfram 1% hefði ekki náðst, eins og það stóð í töflunni, heldur hefði hún vaxið 0,5% meira. Í þeirri töflu kom fram að aukningin hefði því verið 0,5% umfram væntingar.

En eftir að við vorum búnir að fara yfir þetta í ræðustól með þeim gögnum sem við höfðum varð ég mér úti um frekari gögn til að skoða hvernig stæði á því að þessi glöggi þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem hefur verið í fjárlaganefnd til margra ára færi með rangt mál hvað varðaði stefnu ríkisins um vöxt samneyslu. Þegar ég fór í gegnum bæði stefnu og horfur í frumvarpi til fjárlaga árið 2004 og eins sama rit varðandi stefnu og horfur fjárlaga ársins 2005 kom í ljós að við höfðum báðir rétt fyrir okkur. (EOK: Nei, bara ég.) Í töflunni sem ég var með í fjárlögum ársins 2004 stendur skýrum stöfum að spáin sé að samneyslan aukist um 1%. Á bak við hana er texti í fjárlögunum sem segir annað.

Textinn segir, með leyfi forseta:

„Aðhald í ríkisfjármálum verði aukið. Þannig verði árlegur vöxtur samneyslu á árunum 2005–2007 ekki umfram 2% að raungildi. Þar verði meðal annars miðað við að launakostnaður ríkisins hækki ekki umfram laun í samkeppnisgreinunum. Enn fremur verði árleg hækkun tilfærsluútgjalda ekki umfram 2,5% að raungildi á árunum 2006–2007.“

Þarna stendur sem sagt í texta 2%. En í töflu er 1%.

Í sama riti fyrir frumvarp til fjárlaga ársins 2005 er nákvæmlega sami texti. Það er í raun búið að setja textann úr fjárlögum ársins 2004 inn í fjárlögin 2005.

Þar stendur líka að árlegur vöxtur samneyslu sé ekki umfram 2% að raungildi. En í þeirri töflu sem því fylgir stendur 2%.

Þarna er því um það að ræða að einhver hefur gert mistök vegna þess að það liggur ljóst fyrir þegar maður skoðar forsendurnar og skoðar þessar magnbreytingar þjóðhagsstærða, eins og þær eru settar fram þarna, og ég tala nú ekki um þegar maður skoðar frumvarp til fjáraukalaga um sama efni þá kemur þar fram að markmiðið um 1% hafi ekki náðst. Er því furða, herra forseti, þó að menn virðist stundum ekki vera að tala um sömu hlutina?

Að endingu þakka ég samnefndarmönnum mínum í fjárlaganefnd fyrir samstarfið sem við höfum átt. Það er ansi annasamur tími í fjárlaganefnd frá því að þing kemur saman og fram að 2. og 3. umr. fjárlaga. Sérstaklega vil ég þakka þeim embættismönnum sem heimsótt hafa okkur og verið óþreytandi við að reyna að svara spurningum okkar þó að þeim virðist algjörlega ómögulegt að ná upplýsingum út úr þessu nýja bókhaldskerfi ríkisins til að svara spurningum öllum sem við höfum lagt fram. Ég vona þó að þeim takist það og treysti því að þeir séu að vinna núna næturvinnu eins og við við að reyna að ná í þessar upplýsingar sem við þurfum á að halda. En ég vil þakka þeim fyrir gott samstarf og sérstaklega vil ég þakka starfsmönnum fjárlaganefndar sem vinna oft langan og erfiðan starfsdag meðan á fjárlagatörninni stendur. Það stendur ekkert á upplýsingum sem við þurfum á að halda frá starfsmönnum okkar í fjárlaganefnd. Þeir eru alltaf boðnir og búnir og vinna sína vinnu þannig að óaðfinnanlegt er.

Herra forseti. Eins og ég sagði í upphafi máls míns þá ætlaði ég mér að halda hér miklu lengri ræðu en þessa og fara yfir einstaka liði fjárlagafrumvarpsins. En af tillitssemi við þá ræðumenn sem eftir mér koma og með tilliti til þess hvað klukkan er núna þá læt ég máli mínu lokið.