Fjárlög 2005

Föstudaginn 26. nóvember 2004, kl. 10:39:09 (2287)


131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[10:39]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við erum í rauninni að fara að taka afstöðu til stefnu ríkisstjórnarinnar í fjármálum og skattamálum og öðru sem lýtur að rekstri ríkisins. Ríkisstjórnin hefur þegar lögfest sérstaka skattalækkun á hátekjufólk og þær skattalagabreytingar sem fyrirhugaðar eru munu í meira mæli gagnast þeim sem hærri hafa tekjur en þeim sem hafa lægri tekjur. Það er því ekki verið að vinna að jöfnun í þjóðfélaginu með þessum útfærslum.

Stefna ríkisstjórnarinnar birtist í fjárlagafrumvarpinu og þeim áherslum sem hér eru lagðar upp og verða að sjálfsögðu á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Við munum samt eins og jafnan áður í Frjálslynda flokknum styðja þær tillögur sem við teljum að séu til bóta og séu til jákvæðrar þróunar hvort sem þær koma frá stjórn eða stjórnarandstöðu. En meginstefnan er auðvitað á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og við munum ekki styðja hana.