Fullnusta refsinga

Föstudaginn 26. nóvember 2004, kl. 12:12:08 (2310)


131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Fullnusta refsingar.

336. mál
[12:12]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um fullnustu refsinga og er það endurflutt frá síðasta löggjafarþingi.

Þegar frumvarpið, sem lagt var fram þá, var kynnt vakti ég athygli á því að hér gæfist Alþingi í fyrsta sinn tækifæri til að fjalla heildstætt um þær reglur sem hingað til hefðu gilt um fullnustu refsinga og sem hefði að miklu leyti verið skipað í reglugerð. Ég tók það fram að mikilvægt væri að heyra álit sem flestra á frumvarpinu, enda gafst fjölmörgum umsagnaraðilum tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við allsherjarnefnd fyrir 2. umr. málsins. Í ljósi ábendinga og athugasemda sem fram komu ákvað ég að kalla aftur frumvarpið í ráðuneytið til að fara ofan í kjölinn á þeim ábendingum og athugasemdum sem fram höfðu komið. Hefur nú farið fram ítarleg endurskoðun á ákvæðum frumvarpsins í góðri samvinnu við núverandi forstjóra Fangelsismálastofnunar.

Við samningu frumvarps þessa var auk þess tekið mið af stefnumótun sem farið hefur fram undanfarið á vegum Fangelsismálastofnunar og lögð til ýmis nýmæli er varða skipulag og markmið afplánunar. Þannig er t.d. gert ráð fyrir að gerð verði áætlun um framvindu afplánunarferils sérhvers fanga í upphafi refsivistar. Einnig verði rýmkaðar reglur um reglubundin dagsleyfi, en að sama skapi hertar reglur um endurveitingu þeirra verði brugðið út af skilyrðum sem um þau gilda.

Gert er ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi við ákvörðun samfélagsþjónustu, en reglur um skilyrði þess að fá samfélagsþjónustu verði rýmkaðar að einhverju marki þannig að hún muni standa fleiri dómþolum til boða. Í núgildandi lögum kemur samfélagsþjónusta til greina þegar dómþoli hefur hlotið allt að sex mánaða óskilorðsbundna refsingu og er gert ráð fyrir að svo verði áfram. Hafi dómþoli hlotið fleiri en einn dóm eða hluti fangelsisrefsingar er skilorðsbundinn má heildarrefsing samkvæmt núgildandi lögum ekki vera lengri en sex mánuðir.

Lagt er til að þessu verði breytt þannig að heildarrefsingin í þeim tilvikum geti verið allt að níu mánuðir. Gert er þó að skilyrði að óskilorðsbundin refsing í þeim tilvikum sé ekki lengri en sex mánuðir. Rökin fyrir þessu eru m.a. þau að stærstur hluti þeirra dómþola er hljóta blandaða dóma eru 25 ára og yngri og með styttri sakarferil en þeir sem dæmdir eru í óskilorðsbundna refsingu.

Aftur á móti verði þrengdir möguleikar til að fullnusta vararefsingu fésektar með ólaunaðri samfélagsþjónustu. Í núgildandi lögum er ekki kveðið á um lágmarksfjárhæð þeirra sekta sem hægt er að fullnusta með þessum hætti og raunin hefur verið sú að allt niður í 5 þús. kr. sekt hefur verið fullnustuð með samfélagsþjónustu. Þykir í ljósi reynslunnar og til að koma í veg fyrir misnotkun rétt að leggja til 60 þús. kr. lágmarksfjárhæð fyrir samfélagsþjónustu.

Virðulegi forseti. Smygl í fangelsi er alvarlegt vandamál og verður með öllum tiltækum ráðum að stemma stigu við því. Í frumvarpinu eru lagðar til reglur í þessu skyni. Í fyrsta lagi er lagt til að heimilt verði að leita á þeim sem heimsækja fanga ef hann samþykkir það, ella fari heimsókn fram undir eftirliti eða synjað verði um hana.

Í öðru lagi er lagt til að smygl til fanga verði refsiverð háttsemi.

Þá hefur í frumvarpinu verið leitast við að gera réttindum og skyldum fanga í sambandi við ýmis atriði skýr skil. Þetta á við um símtöl og bréfaskriftir, hvaða muni fangi má hafa í klefa sínum, rétt hans til að njóta útiveru, iðka tómstundir, aðgang að hreinlætisaðstöðu, aðgang að fjölmiðli til að fylgjast með gangi þjóðmála, rétt til að hafa samband við prest eða annan sambærilegan fulltrúa skráðs trúfélags, rétt fanga til að kjósa sér talsmann og fleira í þessum dúr.

Einnig má nefna ákvæði frumvarpsins að því er varðar heilsugæslu fanga og hlutverk heilbrigðisstétta. Ekki er gert ráð fyrir breytingum frá núgildandi lögum og framkvæmd að öðru leyti en því að Fangelsismálastofnun verði heimilt að leita sérfræðiálits um nauðsyn og tilhögun sjúkravistar en vitaskuld er vistun fanga á sjúkrahúsi ávallt háð mati læknis. Skýrt er tekið fram að læknir skuli skoða fanga við upphaf afplánunar.

Ýmis önnur ákvæði eru í frumvarpinu sem miða að því að gera réttarstöðu fanga skýrari. Á þetta m.a. við um leit á fanga og líkamsrannsókn, haldlagningu og eignaupptöku og önnur úrræði sem eru íþyngjandi í garð fanga en nauðsynleg til að gæta öryggis og góðrar reglu í fangelsi.

Í þessu sambandi má nefna að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að settar verði skýrar reglur um valdbeitingu fangavarða. Starf þeirra felur eðli málsins samkvæmt í sér valdbeitingu ef í nauðirnar rekur og þótti rétt að setja um það skýran lagaramma. Í frumvarpinu eru tæmandi talin þau tilvik þar sem fangavörðum er heimilt að beita valdi.

Virðulegi forseti. Eins og rakið er í athugasemdum með frumvarpinu sýna athuganir að nauðsynlegt er að reisa nýtt fangelsi við Reykjavík. Fyrirsjáanlegt er að taka þarf Hegningarhúsið á Skólavörðustíg úr rekstri sem fangelsi á næstu árum auk þess sem Fangelsismálastofnun hefur upplýst í skýrslu sem vísað er til í almennum athugasemdum með frumvarpinu að Kópavogsbær vinnur nú að breytingum á skipulagi þess svæðis þar sem fangelsið í Kópvogi er til húsa. Samkvæmt því er fyrirsjáanlegt að það fangelsi verður einnig að víkja á næstu árum.

Þegar rætt er um framtíðaruppbyggingu fangelsanna þarf að huga að mörgum þáttum en mikilvægast er að móta heildarstefnu á þessu sviði. Nauðsynlegt er því að stefnan sem mótuð verði taki ekki einungis til nýbygginga, heldur einnig til þróunar og framkvæmda við þau fangelsi sem verða starfrækt áfram. Með hliðsjón af framangreindum upplýsingum um fækkun fangelsa og spám um fólksfjölgun er það mat Fangelsismálastofnunar að byggja þurfi um 60 nýja fangaklefa hér á landi á næstu árum. Það er hins vegar ekki nóg að byggja þennan fjölda rýma og láta þar við sitja, heldur þarf að fara yfir og meta hvers konar vistunarúrræði eigi að standa til boða og í hvaða hlutfalli. Til dæmis hefur verið á það bent að stærra hlutfall fanga uppfylli skilyrði fyrir vistun í opnara fangelsi samanborið við þá kosti sem til staðar eru á slíkri vistun.

Þá hefur einnig verið bent á nauðsyn þess að vista unga einstaklinga sér, svo og að fjölga vistunarúrræðum fyrir kvenfanga. Konur í fangelsum njóta eins og málum er háttað um þessar mundir ekki sömu fjölbreytni í vistun og karlar þar sem konur eru einvörðungu vistaðar í fangelsinu í Kópavogi.

Á grundvelli framangreindra upplýsinga þarf t.d. að huga að því að fjölga fangaklefum á Kvíabryggju. Einnig þarf að athuga kosti þess að stækka fangelsið á Akureyri, bæði til að fjölga þar rýmum og ekki síður til að bæta aðstöðu til vinnu fyrir þá sem þar eru. Þá er einnig nauðsynlegt að fara vel yfir leiðir til að stækka og nýta mannvirki á Litla-Hrauni og huga þar að endurbótum og breytingum. Í þessu samhengi yrði síðan skoðað hvers konar fangelsi þætti rétt að reisa á höfuðborgarsvæðinu. Þar er fyrst og fremst horft til móttöku- og greiningarfangelsis, svo og deildar þar sem höfuðáhersla yrði lögð á afeitrun og meðferð þeirra sem eiga við vímuefnavanda og/eða geðræn vandamál að stríða. Þann þátt þyrfti að vinna í góðri samvinnu við heilbrigðisyfirvöld sem bera ábyrgð á allri heilbrigðisþjónustu fyrir fanga.

Framtíðarskipan fangelsa í landinu er að sjálfsögðu nátengd þeim markmiðum og stefnu sem mótuð er á þessu sviði og leikur ný löggjöf um fullnustu refsinga þar að sjálfsögðu lykilhlutverk. Tillögur um þróun fangelsa verða því mótaðar í tengslum við afgreiðslu þessa frumvarps hér á Alþingi.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.