Raforkulög

Föstudaginn 26. nóvember 2004, kl. 16:03:45 (2342)


131. löggjafarþing — 40. fundur,  26. nóv. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[16:03]

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að gera smá athugasemd við orð ráðherrans um að þetta hafi verið mikil og skemmtileg vinna. Ég vil vekja athygli hæstv. ráðherra á því að þessum aðgerðum hefur líka fylgt gríðarlega mikill kostnaður. Það er ekki aðeins eftirlitskerfið sem á eftir að kosta nokkuð mikið, mismikið eftir því við hvern maður talar. Einnig ber að hafa í huga að arðsemiskrafan er innbyggð í flutningskerfið og nú eru kröfur um hækkun hennar frá vinaklúbbi ríkisstjórnarinnar, Verslunarráðinu. Loks er fyrirhuguð skattlagning á orkufyrirtækin sem mun að sjálfsögðu líka leiða til meiri kostnaðar.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Telur hún að þessar aðgerðir muni leiða til hækkunar eða lækkunar á raforkuverði til neytenda í landinu, og þá kannski sérstaklega til heimilanna? Ég veit að þetta hróflar ekki stóriðjusamningunum, þeir fá áfram útsöluprísinn. En hvað verður með heimilin í landinu þegar upp er staðið eftir þetta, hæstv. ráðherra?