Fjáraukalög 2004

Fimmtudaginn 02. desember 2004, kl. 13:38:11 (2525)


131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[13:38]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þá er komið að lokaafgreiðslu fjáraukalaga fyrir árið 2004. Ljóst er að minni hlutinn stendur frammi fyrir gerðum hlut í því frumvarpi sem hér er til afgreiðslu. Farið er á svig við fjárreiðulög í ýmsum atriðum eins og við höfum bent á í umræðum og álitum okkar. Þó er rétt að taka fram að ýmislegt hefur færst til betri vegar í gegnum árin, en margt í fjáraukalögunum var fyrirséð og bent á við umræður við fjárlög ársins, annað á raunverulega heima í fjárlögum næsta árs því það er eldra. Það sem er hvað alvarlegast í málinu er að ekki er hægt að sjá neina reglu í því hvernig tekið er á vanda einstakra fjárlagaliða, heldur virðist vera um eitthvert tilviljunarkennt úrtak að ræða sem ekki er hægt að átta sig á. Kannski má segja að það sem einkennir þetta allt saman sé ákveðinn veruleikaflótti, ekki sé tekið á þeim vanda sem við blasi heldur eingöngu því sem hentar hverju sinni.

Herra forseti. Ríkisstjórnarmeirihlutinn ber auðvitað alla ábyrgð á málinu og mun þess vegna einn greiða atkvæði með því. Samfylkingin mun sitja hjá við afgreiðslu málsins.