Húsnæðismál

Fimmtudaginn 02. desember 2004, kl. 14:01:34 (2531)


131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[14:01]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nú byrja á því að þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir einkar hlýleg orð í minn garð hvað varðar þá ræðu sem ég hélt hér.

Varðandi spurningar hans er mér ljúft og skylt að svara þeim. Skoðun mín er einföld, hún er sú að ríkið eigi ekki að vera fyrirferðarmeira á lánamarkaði, hvort sem það er á fasteignalánamarkaði eða öðrum fjármálamarkaði, en nauðsynlegt er. Eftir því sem þátttaka ríkisins er minni þeim mun betra, því minni þátttaka þeim mun betra.

Ég hef hins vegar, eins og ég held að hafi komið fram í ræðu minni, samúð með því sjónarmiði að komið sé til móts við þá fasteignakaupendur sem hafa lítið fé á milli handanna og kannski ekki sterk veð sem þeir geta lagt fram til tryggingar þeim lánum sem þeir taka til kaupa á fasteignum. Það sama á við um lánveitingar til svæða úti á landi þar sem fasteignamarkaður er kannski ekkert mjög virkur, eins og t.d. í dreifbýlum sveitum þar sem ekki er raunverulegur markaður.

Þess vegna sagði ég og varpaði þeirri spurningu til félagsmálaráðherra hvort þessum málum væri hugsanlega ekki betur komið með því að ríkið mundi þá bara sjá um þennan félagslega þátt húsnæðislánamarkaðarins en draga sig að öðru leyti út af honum. Ég held að það væri betra en að ríkið væri í hreinni samkeppni við einkaaðila á húsnæðismarkaði.

Mitt svar er því þetta: Umsvif ríkisins eiga að vera sem minnst en ég hef alveg samúð með því að komið sé til móts við efnaminna fólk og landsbyggðina, (Forseti hringir.) sérstaklega þar sem ekki er virkur markaður með fasteignir.