Húsnæðismál

Fimmtudaginn 02. desember 2004, kl. 14:08:16 (2534)


131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[14:08]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er óskaplega erfitt að henda reiður á skoðunum og stefnu Sjálfstæðisflokksins í þessu máli. Það er engu líkara en að hún breytist dag frá degi. Hér hlustum við t.d. í dag á tvo talsmenn Sjálfstæðisflokksins sem virðast vera algjörlega á öndverðum meiði, ekki bara varðandi Íbúðalánasjóð heldur líka varðandi þróunina á húsnæðismarkaðnum.

Við heyrðum fyrr í morgun hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson tala eins og allt væri að fara til fjandans á þessum markaði. Það var ekki hægt að skilja mál hans öðruvísi en svo að í reynd væri möguleiki á einhvers konar bankakreppu. (Gripið fram í: Rangt.) Mig langar til þess að fá álit hv. þingmanns á því ef hann gefur kost á því, ég mun þó ekki ganga hart eftir því.

Það sem mig langar hins vegar til að spyrja hv. þingmann um — herra forseti, gæti ég fengið frið til að halda áfram ræðu minni fyrir þessum óánægjuhljóðum frá hv. þingmanni?

Herra forseti. Svo að ég hefji aftur máls á síðari spurningu minni er staðan sú að innan Sjálfstæðisflokksins eru samtök sem hafa lýst yfir fullum fjandskap við Íbúðalánasjóð, hafa lýst því yfir að það eigi að selja þá stofnun og leggja niður. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur verið forustumaður þessara samtaka. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Er hann enn þeirrar skoðunar að það eigi að leggja Íbúðalánasjóð niður eða hefur hann tekið flipp-flopp og skipt algjörlega um skoðun eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sem kom hingað í morgun og talaði fyrir tillögum sem beinlínis miða að því að styrkja sjóðinn?