Húsnæðismál

Fimmtudaginn 02. desember 2004, kl. 14:12:24 (2536)


131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[14:12]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þá eru á þessum degi komnar fram þrjár skoðanir af hálfu sjálfstæðismanna gagnvart Íbúðalánasjóði. Í fyrsta lagi var rifjað hér upp að ýmis félög, eins og Samband ungra sjálfstæðismanna, hafa gert ályktanir í gegnum tíðina um að leggja beri Íbúðalánasjóð niður.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson flutti hér tölu í morgun þar sem hann reifaði og rökstuddi tillögur til þess beinlínis að halda Íbúðalánasjóði á lífi. Af því er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hafi skipt um skoðun og telji núna að það skipti máli að halda Íbúðalánasjóði á lífi. Sjálfur er ég nokkuð hlynntur því sjónarmiði.

Síðan er þriðja sjónarmiðið sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kom með, lagði nú ekki í að skýra afstöðu sína algjörlega, en hún var sú að það ætti að láta Íbúðalánasjóð lifa til þess að sinna þeim verkefnum sem þörf væri á. Hann skilgreindi hins vegar ekkert frekar hvaða verkefni nákvæmlega það væru. Hugsanlega var það landsbyggðin og hugsanlega voru það ýmis félagsleg vekefni.

Út af fyrir sig skiptir það ekki máli. Það sem bara stendur upp úr þessari umræðu er vandræðagangurinn í Sjálfstæðisflokknum gagnvart félagslegum húsnæðismálum og gagnvart Íbúðalánasjóðnum.

Sjálfstæðisflokkurinn, sem er stærri flokkurinn í ríkisstjórninni, kemur hérna í þessu mikilvæga máli og það stendur ekki steinn yfir steini af því sem talsmenn, hv. þingmenn, flokksins eru að fara með. Það er ekki hægt að leggja saman þessar mismunandi afstöður sem þessir tveir hv. þingmenn hafa flutt hér á þessum degi. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson verður að skýra það út, ekki bara fyrir kjósendum sínum, heldur líka okkur sem erum hér í umræðunni: Er hann búinn að skipta um skoðun? Er hann að lýsa því yfir að það hafi bara verið vitleysa sem (GÞÞ: Ég var …) Samband ungra sjálfstæðismanna sagði hér fyrr á árum og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson tók undir með honum (Forseti hringir.) um að það ætti að leggja niður sjóðinn? (Forseti hringir.) Eða er hann allt í einu farinn að umfaðma hann?