Húsnæðismál

Fimmtudaginn 02. desember 2004, kl. 14:53:53 (2542)


131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Húsnæðismál.

220. mál
[14:53]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu sem fram kom hér hjá hæstv. félagsmálaráðherra um að hann ætli að hækka þá hámarksfjárhæð sem má veita að láni og er það í samræmi við það sem ég lagði áherslu á bæði við 1. og 2. umr., þ.e. að sú hámarksfjárhæð sem var áformuð af hendi hæstv. ráðherra væri of lág og að fara þyrfti hærra með þá hámarksfjárhæð til að sjóðurinn yrði samkeppnisfær á markaðnum og hefur hæstv. ráðherra komið að hluta til móts við það og ég fagna því mjög.

Ég tel að vísu að ráðherrann fari heldur of lágt í þessu. Ráðherrann talar um 14,9 í staðinn fyrir 13 milljónir sem átti að fara í núna um áramótin. Í staðinn verða það 14,9 og það er auðvitað skref í áttina. En ef hæstv. ráðherra er að miða við 110–130 fermetra íbúð þá kosta þær núna í nóvembermánuði samkvæmt áætlun Fasteignamats ríkisins 17,2 milljónir. Ráðherrann hefði því þurft að fara í 15,5 milljónir með hámarksfjárhæðina til þess að mæta því.

Ég fagna ekki síður því sem fram kom hjá hæstv. ráðherra um aukið veðrými til uppgreiðslu óhagstæðra lána. Nú geta því lántakendur með óhagstæð lán skuldbreytt þeim án þess að þurfa að flytja öll sín lán frá Íbúðalánasjóði til þess að geta skuldbreytt einu óhagstæðu láni. Ég tel að þetta muni verja sjóðinn uppgreiðslu og sé til verulegra hagsbóta fyrir þá sem eru með vexti sem eru núna á bilinu 5–6% hjá Íbúðalánasjóði sem þeir geta ekki hreyft sig með.

Aftur á móti veldur það mér miklum vonbrigðum að hæstv. ráðherra telur sig ekkert þurfa að gera varðandi leigumarkaðinn. Hann telur framboð leiguíbúða nægjanlegt. Það má vera að svo sé á almenna markaðnum. En það er ekki í félagslegum leiguíbúðum þar sem um 2.000 manns bíða og ríkir þar neyðarástand.

En ég fagna hinum yfirlýsingum hæstv. ráðherra.