Málefni sparisjóðanna

Föstudaginn 03. desember 2004, kl. 10:38:54 (2595)


131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Málefni sparisjóðanna.

[10:38]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Saga sparisjóðanna á Íslandi er gagnmerk, allt frá því að fyrsti forveri þeirra leit dagsins ljós norður í Mývatnssveit upp úr miðri 19. öld. Sú saga er einnig, lengst af a.m.k., gott dæmi um félagslegan þroska og óeigingirni þess fólks sem bast samtökum um að byggja upp og efla sína heimabyggð, bæta þar mannlíf, hlúa að menningu og styðja þá sem höllum fæti standa. Í nærri 150 ára sögu sparisjóðanna var það alla tíð þannig og allt þar til fyrir fáeinum árum að ábyrgðarmenn og stofnfjáreigendur í sparisjóðum voru gæslumenn sparisjóðanna. Öllum sem tóku þátt í stofnun sparisjóðs eða gerðust stofnfélagar var ljóst að þeir áttu ekki sparisjóðinn umfram það stofnfé, áður ábyrgðir, sem þeir lögðu fram til að koma sjóðnum á laggirnar. Aldrei stóð til að menn högnuðust á þeirri þátttöku sinni umfram þann arð sem framlag þeirra skilaði og að þeir ættu það uppreiknað ef til slita á sjóðnum kæmi. Þetta er hollt að rifja upp nú þegar það virðist allt í einu orðinn sjálfsagður hlutur að stofnfjárhlutinn í sparisjóðum gangi kaupum og sölum fyrir margfalt uppfært verð. Þaðan af síður er það í samræmi við upprunalegan tilgang sparisjóðanna og anda laganna sem um þá gilda að menn taki í krafti stofnfjáreignar að ráðskast með sjóðina í stað þess að gæta þeirra og ætli sér jafnvel að ná undir sig eigin fé þeirra öðru en stofnfé eða hafa af því persónulegan eða pólitískan hag að ráða fyrir því.

Því miður er veruleikinn sá að á síðustu missirum hafa verið gerðar ítrekaðar tilraunir til að komast fram hjá anda laganna um sparisjóði, sjálfstæði þeirra og fjármuni í eins konar félagslegri sameign íbúa á viðkomandi starfssvæði, að þeirra sé hvort tveggja gætt með dreifðri eignaraðild hóps stofnfjáreigenda sem séu gæslumenn sjóðsins og standi vörð um hann. Svæsnastir hafa leiðangrarnir verið til að komast að sjóðum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis enda er þar mikið að hafa. Það er ótrúlegt upp á það horfa að þar hefur farið einna fremstur í flokki formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, hv. þm. Pétur Blöndal.

Nú er enn eina ferðina upp hafinn mikill óróleiki kringum SPRON og allt að helmingur stofnfjár hefur á skömmum tíma skipt um hendur. Norður í Skagafirði standa yfir hörð átök milli almennra stofnfjáreigenda í Sparisjóði Hólahrepps og síðan kaupfélagsins og fleiri aðila sem eru að taka völdin í sjóðnum með því að dreifa stórum eignarhlut á hóp tengdra og skyldra aðila, bæði einstaklinga og fyrirtækja. Þannig er verið að komast fram hjá reglunni um að enginn fari með meira en 5% atkvæða í sparisjóði, grunnhugsuninni um að enginn einn ráðskist með sjóðina heldur sé þeirra gætt af hópi jafnsettra stofnfjáreigenda. Fjármálaeftirlitið virðist máttlaust eða viljalaust í þessum efnum, nema hvort tveggja sé.

Hér hangir mikið á spýtunni, herra forseti. Spurningin er hvort menn ætli að láta það líðast að menn finni sér nýjar hjáleiðir fram hjá þeim vörnum sem Alþingi hefur ítrekað á síðustu árum reynt að setja upp til að tryggja sparisjóðina, að þeir fái að vera í friði og sinna sinni mikilvægu viðskiptaþjónustu en þeir eru sem kunnugt er stærsti einstaki aðilinn í almennum bankaviðskiptum með 25–30% markaðshlutdeild. Ekki þarf að fara mörgum orðum um hversu mikilvægur aðili sparisjóðirnir eru þegar kemur að því að tryggja fjölbreytni og samkeppni á þessum markaði, og veitir víst ekki af.

Ég hef því af þessu tilefni leyft mér að leggja spurningar fyrir hæstv. viðskiptaráðherra. Þær eru eftirfarandi:

Hefur viðskiptaráðuneytið fylgst með þeim hræringum sem verið hafa í málefnum SPRON og Sparisjóðs Hólahrepps að undanförnu?

Telur ráðherra ástæðu til að gera lagalegar ráðstafanir til að tryggja betur en nú er gert að stofnfjáreigendur geti ekki tekið til sín eða hagnast með óeðlilegum hætti á eigin fé sparisjóða, öðru en stofnfé?

Ég spyr t.d. vegna hugleiðinga í ítarlegri fréttaskýringu í Morgunblaðinu sl. sunnudag um að menn ætli sér að ná ávöxtun á kaup á stofnfé í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis fyrir margfalt uppfært nafnverð með því að greiða stanslaust út ríflegan arð og uppfæra stofnféð þannig að gengið verði í reynd á eigið fé sjóðsins. Kemur til greina t.d. sem vörn við því að skylda að sambærilegur arður verði þá greiddur út til menningar- og líknarstarfsemi á svæðinu og stofnfjáreigendur fá á hverju ári?

Telur ráðherra að þörf sé á að skerpa á lagaákvæðum um að enginn geti farið með meira en 5% atkvæða í sparisjóði, t.d. með því að banna alfarið að stærri eignarhlutur sé gerður virkur með því að dreifa honum á nokkra skylda eða tengda einstaklinga eða nokkur tengd fyrirtæki?

Loks spyr ég fjármálaráðherra út í Fjármálaeftirlitið.