Málefni sparisjóðanna

Föstudaginn 03. desember 2004, kl. 11:08:47 (2606)


131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Málefni sparisjóðanna.

[11:08]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu, hún leiðir enn á ný í ljós mikla samstöðu hér á Alþingi og vilja til að standa vörð um sparisjóðina. Þau skilaboð þurfa að koma héðan og þeir vita sem við eiga að taka og gerðu rétt í því að hafa það í huga. Alþingi hefur áður sýnt vilja sinn í verki til þess að koma í veg fyrir að menn komist fram hjá og á svig við anda og inntak laganna um sparisjóði.

Svör hæstv. ráðherra fundust mér óþarflega daufleg. Varðandi fyrra atriðið sem ég spurði um sérstaklega held ég að taka eigi það til skoðunar, þótt ekki væri nema sem hreint öryggisatriði, að jafnræði væri tryggt með aðilum, þ.e. stofnfjáreigendum annars vegar og öðrum markmiðum sparisjóðanna hins vegar, þegar til arðgreiðslna kæmi. Sú leið væri bara fyrir fram lokuð að stofnfjáreigendurnir gætu náð til sín meiru en þeim ber í gegnum eignarhlut sinn í sparisjóðunum.

Varðandi 5% regluna er það ekki flókið mál, það á ekki að þurfa langa skoðun þó að það sé gott að ráðuneytið sé að skoða hana. Það er ósköp einfalt að banna það að tengdir og skyldir aðilar yfir vissum mörkum fari nokkurn tíma samanlagt með meira en 5%. Víða í lögum eru til skilgreiningar á því hvað teljist skyldir og tengdir aðilar í rekstri eða hvað blóðbönd og fjölskyldutengsl varðar sem einstaklinga. Þetta er til í lögum um fjárfestingar útlendinga í sjávarútvegi, lögum um kvótaþak, víða í fjármálalöggfjöfinni þar sem skyldleiki manna er skilgreindur varðandi vanhæfi eða annað því um líkt. Þetta er hægt að gera.

Varðandi áhyggjur manna af afkomu sparisjóðanna deili ég þeim ekki svo lengi sem sparisjóðirnir fá að vera í friði sem sparisjóðir. Það sem menn telja veikleika þeirra í dag gæti reynst styrkleiki þeirra á morgun, það að hafa ekki þanið sig út á ótryggu erlendu lánsfé eins og sumir hafa gert.