Hrun veiðistofna skelfisks og innfjarðarrækju

Föstudaginn 03. desember 2004, kl. 13:31:59 (2635)


131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Hrun veiðistofna skelfisks og innfjarðarækju.

[13:31]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þeir kölluðu rækjuna stóra kampalampa þegar rækjuveiðar byrjuðu fyrst í tilraunaskyni í Ísafjarðardjúpi fyrir 80 árum. Alvaran hófst síðan árið 1936 þegar vinnsla á rækju hófst á Ísafirði. Rækjuveiðar innfjarða hafa verið mjög mikilvægar í atvinnulífi víða um land og má segja að þær hafi tryggt vöxt og viðgang minni bátaútgerðar þar sem þær hafa verið stundaðar.

Þegar hörpudisksveiðar hófust fyrst frá Bolungarvík árið 1968 urðu kaflaskil í útgerðarsögu okkar og hörpudiskveiðar og vinnsla hafa verið mjög þýðingarmikill þáttur í sjávarútvegi okkar og gjaldeyrissköpun og hreinlega burðarás í atvinnulífi á Snæfellsnesi, einkanlega Stykkishólmi.

Virðulegi forseti. Getur verið að nú sé sagan öll? Við vitum það ekki. En eitt er ljóst. Engar innfjarðarækjuveiðar eiga sér lengur stað hér við land og algert veiðibann er nú á hörpudiski við landið. Þetta eru auðvitað hrikaleg tíðindi.

Við skulum aðeins átta okkur á tölunum. Á árunum 1990–2000, eða þar um bil, nam innfjarðarækjuveiðin að jafnaði 7–10 þús. tonnum. Veiðin var stunduð á minni bátum, oftast í eigu einstaklinga og fjölskyldna þeirra. Þessi veiðiskapur skipti miklu máli. Hann var grundvöllur annarrar útgerðar og skapaði mikilvæg störf á svæðum sem sannarlega þurftu á þeim að halda. Á síðustu árum hafa veiðarnar smám saman dregist saman.

Rækjuveiðin við Snæfellsnes er ekki svipur hjá sjón. Í Ísafjarðardjúpi hefur aldrei fengist jafnlítið af rækju í rannsóknarleiðangri. Rækjustofninn í Húnaflóa hrundi árið 1996. Rækjan hvarf í Skagafirði haustið 2000. Veturinn 1999–2000 hvarf hún í Skjálfanda og í Öxarfirði hefur verið og er veiðibann. Til marks um hversu hlutirnir ganga hratt fyrir sig má nefna að í ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunar sl. vor var talað um að rækjustofninn í Arnarfirði væri nærri sögulegu hámarki, en við rannsóknir í haust varð niðurstaðan sú að leggja til algert veiðibann. Þar með hurfu síðustu rækjuveiðar innfjarða við strendur landsins. Svo alvarlegt er málið.

Athyglisvert er að samkvæmt gögnum vísindamanna er ástandið alls staðar hið sama og á innfjarðaslóðinni. Rækjan er horfin en ýsa og þorskur vaða inn um allt, einkanlega ýsan sem er nú í gríðarlegum vexti á svæðum sem hún þekktist jafnvel ekki. Hækkandi hitastig sjávar er greinilega að gjörbreyta myndinni. Hér sýnist manni að á ferðinni séu einhver skýrustu merki sem við þekkjum um umhverfisbreytingar í hafinu í kringum okkur. Gagnvart þessum stofnum, rækjustofnunum og hörpudiskinum, birtist þetta sem eins konar náttúruhamfarir.

Svipaða sögu er að segja af hörpudiskinum. Á árunum 1990–2000 var veiðin í Breiðafirði að jafnaði 8–10 þús. tonn. Nú er veiðibann. Stofninn er í sögulegu lágmarki. Afleiðingarnar eru gríðarlegar. Atvinnuráðgjöf Vesturlands mat það svo að fyrir Stykkishólm, sem var með 75% í heildarhörpudiskaflanum, að efnahagslega tapið í byggðarlaginu gæti numið 614–660 millj. kr. á ári. Það þarf ekki að orðlengja það að þetta er gífurlegt áfall. Útgerðarmenn og sjómenn skelfisksbátanna hafa gagnrýnt vinnubrögð Hafrannsóknastofnunar mjög harðlega og telja mjög ákveðið að ekki hafi verið vel staðið að rannsóknum. Athygli vekur að forsvarsmenn fyrirtækjanna hafa sjálfir haft frumkvæði að því að kalla til erlenda sérfræðinga til að vinna að rannsóknunum.

Stjórnvöld hafa reynt að koma til móts við þær byggðir sem orðið hafa fyrir þessu áfalli með ýmsum hætti. Byggðakvótum hefur verið beitt, en einkanlega svokölluðum jöfnunarúthlutunum og hefur um þær ráðstafanir verið prýðileg sátt. Vandinn er hins vegar sá að hér er um skammtímaaðgerðir að ræða. Forsendan er sú að um sé að ræða mjög tímabundið ástand sem muni breytast til batnaðar. Þannig hefur það líka jafnan verið. Við þekkjum dæmi úr sögunni um tímabundinn aflabrest á einstökum tegundum.

Núna er ástandið hins vegar miklu alvarlegra og langvinnara. Með núverandi aðferðum munu aflabæturnar smám saman eyðast út. Útgerðirnar sem byggðust upp með veiðirétti í þessar tegundir verða verðlausar og menn geta ekki bjargað sér með því að hverfa að öðrum veiðum. Við þekkjum því miður afleiðingarnar nú þegar. Bátum hefur fækkað gífurlega þar sem vandræðin hafa staðið lengst. Til viðbótar þessu hefur síðan komið verðfall á rækju, ekki síst smærri rækjunni sem er uppistaðan í afla bátanna. Þessi útgerðarflokkur sem var mjög öflugur, t.d. við Djúp og í Húnaflóa, er nú ekki svipur hjá sjón og afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa. Færri störf og lakari afkoma á svæðum sem síst máttu við slíku.

Því leyfi ég mér, virðulegi forseti, að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra eftirfarandi spurninga:

1. Er ástæða til sérstakra og frekari rannsókna á þeim aðstæðum sem upp eru komnar í innfjarðar- og skelfisksstofnunum?

2. Í ljósi þessa hruns sem ég hef hér lýst gefur þetta tilefni til nýrra vinnubragða varðandi úthlutun aflabóta í landinu?