Fjárlög 2005

Föstudaginn 03. desember 2004, kl. 15:33:52 (2663)


131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:33]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyrði að hv. þingmaður sagði að hvað hefði rekist á annars horn í ræðu minni. Ég bið hann að skýra fyrir mér hvað það var því að hann gat ekki um í hverju það væri fólgið.

Það er hárrétt sem virðulegur þingmaðurinn tók eftir, að ég tel að með því að hækka gengi krónunnar núna séum við að grafa undan atvinnulífinu, grafa undan framleiðslunni og setja okkur í mikla hættu. Seðlabankinn, sem ber að sjá um hagstjórnina, getur notað allt önnur tæki. Hann á að nota bindiskylduna. Hættan sem íslenskt þjóðfélag stendur frammi fyrir er vegna gríðarlegs framboðs og glannagangs í íslenskum peningastofnunum. Seðlabankinn á að stoppa það af.

Við skulum líta á verðbólguna, virðulegur forsetii. Hvernig er hún saman sett? Hvað hefur farið úrskeiðis þar? Íbúðaverð, fasteignaverð (Gripið fram í.) (LB: Og bensínverð.) og olía og bensín. Þetta hefur farið úrskeiðis. Þeir skulu bara átta sig á því um hvað er að ræða.