Fjárlög 2005

Föstudaginn 03. desember 2004, kl. 20:48:35 (2740)


131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[20:48]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú eru breyttar forsendur, eins og ég fór hér yfir, varðandi stóriðjuframkvæmdir, gengisvísitölu, launasamninga og vaxtastig Seðlabanka og stýrivaxta. Ef ekki nú, þá hvenær?

Hæstv. ráðherra fór hér yfir stöðu stofnana og lista sem við báðum um, minnihlutafulltrúar í fjárlaganefnd. Ástæðan fyrir því að við vildum sjá stöðu stofnana í lok september var að sjá hvernig þær stæðu sig í rekstri. Við vildum líka sjá upphafsstöðu þeirra í upphafi árs og það verður að segjast eins og er að fjöldi stofnana hefur starfsár sitt á hverju ári með stóran negatívan höfuðstól, jafnvel svo stóran að allar fjárveitingar ársins duga ekki til að hífa hann upp á núll. Hvernig í ósköpunum á að vera hægt að reka slíka stofnun yfir árið? Getur hæstv. fjármálaráðherra ekki verið sammála mér um nauðsyn þess að taka stofnanir sem eru með svona stóran halla í upphafi árs og skoða sérstaklega til hvaða aðgerða þarf að grípa og hvort fjárveitingar gætu hugsanlega verið of litlar til að þær gætu sinnt lögbundnu hlutverki sínu?