Samræmt gæðaeftirlit með háskólum

Miðvikudaginn 08. desember 2004, kl. 11:01:27 (2913)


131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Samræmt gæðaeftirlit með háskólum.

283. mál
[11:01]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra afar fróðleg svör við spurningum mínum. Lýsing hæstv. ráðherra færir okkur heim sanninn um hversu mikilvægt gæðamat á háskólastarfi er, og hversu risavaxið verkefni það er. Þegar þetta er útlistað á svo skýran hátt sem hæstv. ráðherra gerði, leiðir maður hugann að því hvort íslensk stjórnvöld séu nægilega vel í stakk búin til að sinna þessu verkefni svo að vel fari. Kerfi af þessu tagi, sem hefur bæði innra og ytra gæðamat, og það að skrifa allar skýrslur sem því fylgja, og fylgjast með skýrslum sem koma frá sjálfsmatshópunum, hlýtur að vera yfirþyrmandi og yfirgripsmikið verkefni. Hæstv. menntamálayfirvöld hljóta því að verða að hafa margt gott fagfólk til að sinna því.

Ég treysti því sannarlega að við höfum það, og ég veit að við höfum margt vel menntað og hæft fólk á sviði þessa málaflokks. Við verðum auðvitað að treysta hæstv. menntamálaráðherra hvað það varðar að málaflokkurinn fái nægilegt vægi í menntamálaráðuneytinu svo tryggt sé að við séum að gera jafn vel og mögulegt er.

Samkvæmt upplýsingum hæstv. ráðherra mun Berlínarfundurinn hafa sett á oddinn að gæði æðri menntunar verði þungamiðjan í sameiginlegri stefnu ráðherranna og er það vel. Að sameiginlegir staðlar skuli nú vera í þróun í þeim efnum eykur auðvitað enn á öryggi okkar, því við verðum að sjá til þess að stúdentar í háskólum okkar séu öruggir um að nám þeirra standist gæðakröfur sem gerðar eru í nágrannalöndunum.