Lokun Kísiliðjunnar

Miðvikudaginn 08. desember 2004, kl. 11:34:27 (2924)


131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Lokun Kísiliðjunnar.

[11:34]

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Það er grafalvarlegt mál sem við fjöllum um hér. Mætti í raun og veru líkja því við náttúruhamfarir sem nú hefur gerst í Mývatnssveit. Það er hins vegar ekki rétt að fyllast bölsýni gagnvart framtíðinni, heldur er rétt að fagna yfirlýsingu hæstv. iðnaðarráðherra um það að ráðuneytið hafi nú tekið höndum saman með heimamönnum um það að leita lausna á þeim vanda sem nú er uppi. Það er því miður ljóst að ekki er verið að leysa millibilsástand, heldur þarf að finna lausn til frambúðar.

Það er einnig ljóst að við höfum eytt allt of miklum tíma í þá hugmynd sem við allt of mörg héldum að væri raunveruleg, og hæstv. ráðherra nokkrum sinnum fyllti trú okkar von. Því miður hefur innstæða ekki verið fyrir þeim vonum og þess vegna á að einbeita sér að því að reyna að finna lausn sem dugar til frambúðar. Þá hljóta menn að sjálfsögðu að byggja á sérstöðu svæðisins, það er ljóst að ferðaþjónustan hlýtur að leika þar stórt hlutverk. Orkan sem býr í umhverfinu hlýtur líka að leika þar stórt hlutverk og þarf að tvinna þetta saman á þann hátt að byggðin eflist.

Það er því miður ekki nóg að stjórnvöld hafi bara haft eina leið. Ég saknaði þess í ræðu hæstv. ráðherra að það hafi ekki verið undirbúin áætlun B ef slík ósköp dyndu aftur yfir sem nú hafa yfir dunið, og það væri hægt að grípa til einhverra aðgerða sem duga mættu. Auðvitað ráða fjárfestarnir för og það er ætíð mikil áhætta þar til búið er að skrifa undir hvað úr verður. Margt getur breyst og nú heyrðum við í ræðu hæstv. ráðherra að fyrirtækið sem ætlaði að standa að þessu hefur óskað gjaldþrotaskipta. (Forseti hringir.)