Skráning og mat fasteigna

Miðvikudaginn 08. desember 2004, kl. 15:05:28 (2967)


131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Skráning og mat fasteigna.

335. mál
[15:05]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hauk Ingibergsson og Margréti Hauksdóttur frá Fasteignamati ríkisins og Hafstein S. Hafsteinsson frá fjármálaráðuneyti.

Tilgangur frumvarpsins er líkt og kemur fram í athugasemdum við það að skýra reglur um auðkennisnúmer fasteigna, styrkja stjórnsýslu við framkvæmd fasteignamats og marka fjárhagsgrundvöll Fasteignamats ríkisins til að halda og þróa Landskrá fasteigna.

Nefndin gerir athugasemd við það til hve langs tíma til viðbótar lagt er til að umsýslugjald, sbr. 4. gr., verði innheimt af húseigendum. Við afgreiðslu 285. máls á 125. þingi var samþykkt tillaga meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar um breytingar á því máli þar sem ákvæði um umsýslugjaldið var fært í bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 48/1994 og því ætlað að falla niður á árinu 2004. Átti stofnkostnaði við Landskrá fasteigna þá að vera lokið. Nefndin metur Landskrá fasteigna sem mjög merkilegt og mikilvægt verk en telur jafnframt að leita verði leiða til að takmarka þann kostnað við verkið sem fasteignaeigendur bera einir. Því leggur nefndin til að tímabilið sem umsýslugjaldi er ætlað að vera innheimt skv. 4. gr. verði árin 2005 og 2006 í stað 2005–2008. Eftir það skuli tekna aflað með öðrum hætti.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Í stað „2005–2008“ í 4. gr. komi: 2005 og 2006.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, Dagný Jónsdóttir, Birgir Ármannsson, Siv Friðleifsdóttir, Gunnar Birgisson og Ögmundur Jónasson, með fyrirvara.

Frú forseti. Þegar þetta mál var rætt eins og hér getur á 125. þingi stóð fyrir dyrum að byggja upp mjög merkilegt kerfi fasteignaskráningar, kerfi sem samanstendur af skráningunni sjálfri, skilgreiningum á hvað er eign, hvað er fasteign og hvernig beri að skilgreina einstaka fasteignahluta, síðan lagasetningu og reglusetningu í kringum þetta. Það er mjög merkilegt verk sem þarna var unnið og það gagnast mjög mörgum. Það gagnast fasteignaeigendum, lánakerfinu og bönkum, Íbúðalánasjóði og sveitarfélögum til álagningar gjalda. Þess vegna taldi nefndin ekki eðlilegt að fasteignaeigendur, einn af þeim hópum sem þetta gagnast, ættu að greiða kostnaðinn og eðlilegra væri að þessi stofnun leitaði leiða til að innheimta gjöld af notendum kerfisins, þ.e. tæki inn meiri þjónustugjöld af þeim sem nota kerfið og næði þannig inn stofnkostnaði.

Þetta eru þau sjónarmið sem uppi eru. Nú hefur það gerst að ýmsum verkefnum er bætt við sem að einhverju leyti koma fasteignaeigendum til góða en ekki að öllu leyti. Það á að lengja tímann í fjögur ár en meiri hluti nefndarinnar komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri eðlilegt að lengja hann nema í tvö ár. Sú varð sem sagt niðurstaðan en lögð er mikil áhersla á það að fundnir verði greiðendur að kostnaðinum meðal þeirra sem mest njóta kerfisins.