Skráning og mat fasteigna

Miðvikudaginn 08. desember 2004, kl. 17:35:19 (2982)


131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Skráning og mat fasteigna.

335. mál
[17:35]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði í ræðu minni að þetta væri án efa tæknileg skráning og í sjálfu sér mundi hún upplýsa og geyma upplýsingar sem skiptu máli. Ég vildi bara upplýsa hv. þingmann um að það er talsvert síðan sýslumannsembættin fóru að skrásetja eignir og innfæra skjöl í tölvu. (PHB: Nei.) Ég vildi bara upplýsa hann um það og (Gripið fram í.) það er ágætt fyrir hann að vita það, og eins með bifreiðar og annað. Ég vildi bara upplýsa hv. þingmann þannig að hann fari ekki (Gripið fram í.) aftur með þessa tölu.

Hins vegar er kjarninn sá að fram hefur komið að til þess að ríkið geti staðið undir þeim verkefnum sem það er með verði að verðtryggja skattstofna og gjaldstofna. Það er ekki gert með persónuafsláttinn eða bótafjárhæðir. Í hugmyndum sem fram koma í fjárlögunum og greinargerð með þeim á að hækka persónuafsláttinn um 3%. Verðbólguspá fjármálaráðuneytisins er hins vegar 3,5%. Með öðrum orðum mun raunvirði persónuafsláttarins rýrna. Við erum sammála um það. Þegar við skoðum hins vegar alls konar gjöld og álögur, ekki síst álögur á fasteignir og bifreiðar, erum við að tala um álögur langt umfram það sem verðbólgan getur réttlætt. Ég skil vel að hv. þingmaður eigi hér í talsverðum erfiðleikum með að reyna að rökstyðja hugmyndir sem hann hefur talað gegn gegnum tíðina, þ.e. um endalausa útvíkkun og stækkun ríkisins, endalausa, þar sem menn hafa algjörlega misst tökin á því (Forseti hringir.) og ég skil vel að hv. þingmanni líði illa. (Forseti hringir.) Ég átti samt ekki von á að hann færi í þessar skotgrafir í vörn sinni.