Skráning og mat fasteigna

Miðvikudaginn 08. desember 2004, kl. 17:56:34 (2985)


131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Skráning og mat fasteigna.

335. mál
[17:56]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ber ekki á móti því að ég sé ekki slík mannvitsbrekka að ég hafi skilið allt sem hv. þingmaður sagði áðan. Hitt er algjörlega ljóst að hversu takmörkuð sem greind mín kann að vera af guðs hendi þá er hún næg til þess að skilja að Sjálfstæðisflokkurinn er að hækka skatta, ekki bara hér heldur með öðrum aðgerðum. Sennilega er þessi flokkur ábyrgur fyrir 15–20 mismunandi skattahækkunum frá því að kjörtímabilið hófst og til þessa dags.

Ég vil rifja það upp fyrir hv. þingmanni að ég hélt hér langa ræðu og vonandi efnismikla um tiltekið frumvarp sem hæstv. samgönguráðherra tróð í gegnum þingið þar sem var hægt að finna ein sex eða sjö, jafnvel átta með góðum vilja, ný gjöld. Allt eru þetta feluskattar. Þessi feluskattastefna Sjálfstæðisflokksins er ekkert annað en tilraun hans til þess að blekkja kjósendur. Það er verið að keyra í gegnum Alþingi hvern laumuskattinn á fætur öðrum. Hv. þm. Pétur H. Blöndal tekur þátt í því. Svo kemur hann og segir að það sé ekki skattahækkun þegar verið er að hækka hin ýmsu gjöld til samræmis við verðlagsbreytingar. Má ég upplýsa hv. þingmann um að í öðrum löndum sem við berum okkur oft saman við þá er engin sjálfvirkni þarna á milli. Til dæmis hefur hv. þingmaður stundum hrósað Verkamannaflokknum í Bretlandi fyrir aðgát og aðgæslu og aðhald í ríkisfjármálum. Þar var verið að leggja fram fjárlagafrumvarp nú fyrir nokkrum dögum og þar var það sérstaklega tekið fram af fjármálaráðherranum að sökum góðrar stöðu í ríkisfjármálum þyrfti ekki að hækka ýmis slík gjöld eins og bensínskatt sem hv. þingmaður hefur hins vegar tekið þátt í að gera og á örugglega eftir að taka oft þátt í.