Aukatekjur ríkissjóðs

Miðvikudaginn 08. desember 2004, kl. 19:04:23 (3009)


131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[19:04]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sami söngurinn byrjaði aftur hjá hv. þingmanni, þetta er því alltaf sama ræðan. Verið er að hækka aukatekjur og önnur gjöld ríkissjóðs til að færa þau nær verðlagi. Það nær því ekki einu sinni. Því er verið að tala um raunlækkun af þessu. Ef menn ætla alltaf að hafa sama verðlagið, ég veit ekki hvort það er alltaf sama verðlagið heima hjá hv. þingmanni í Vestmannaeyjum, þar sé sama verðlag 1990 og núna. Kannski. Hér er því verið að lækka skatta. Verið er að fara í mestu skattalækkanir Íslandssögunnar og Samfylkingin er að reyna að fara í eitthvert málþóf og drepa málinu á dreif en þeim mun ekki takast það. Þeim mun ekki takast það því það eina sem þetta fólk kann er að hækka skatta. Það er það eina sem það kann og hefur sýnt sig.

Eina gjaldið sem er til umræðu í dag er hækkun á fasteignamati. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson fór yfir sérstök verkefni fyrir Fasteignamat ríkisins upp á 280 millj. en hann sagði ekki hvað lengi. Það er í tvö ár. Þetta var gert árið 2000. Þá voru þetta fjögur ár en það dugði ekki til að ljúka verkefninu. Nú hafa þeir tvö ár til að ljúka þessu með skrásetningu á eignum og annað sem er mjög nauðsynlegt og gott mál fyrir alla, sveitarfélög, einstaklinga, fyrirtæki, fasteignasala o.s.frv. Það er því mjög gott. En það er eina skattahækkunin sem hefur í raun og veru komið fram. Hitt er allt verið að færa að verðlagi.

Það þýðir ekki að berja hausnum við steininn og segja: Það er sama verðlag á Íslandi og var á landnámsöld. Þetta er alveg ótrúlegt. Menn halda að það sé 0% verðbólga. Ég skil ekki að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson skilji þetta ekki, en ég er alveg tilbúinn til að taka hv. þingmann í einkatíma ef nauðsyn ber til og hann vill hlusta á mig.