Aukatekjur ríkissjóðs

Miðvikudaginn 08. desember 2004, kl. 19:08:37 (3011)


131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[19:08]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef við tökum uppgjör á fyrirtækjum er það alltaf fært til verðlags þess árs. Ég held að það væri hollt fyrir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar að færa töluna til þess verðlags sem verið er að tala um. Menn eru að tala um krónur í öðru tilfellinu og prósentur í hinu og öllu er ruglað saman.

Varðandi tillögur Samfylkingarinnar sem hafa verið í umræðunni um fjárlög og annað og vegna fjárlaga 2005 eru tillögur Samfylkingarinnar upp á tugi milljarða í útgjaldaauka. (Gripið fram í.) Á sama tíma … (Gripið fram í.) Virðulegi forseti, ég verð að hafa orðið hérna fyrir þingmanninum.

Hv. þingmaður vitnaði í Morgunblaðið þar sem þess er getið að samneyslan í samfélaginu hafi aukist og það er rétt, hún hefur aukist og kannski helst til mikið. (LB: Ég las upp úr Morgunblaðinu.) Hv. þingmaður las ekki nema part af greininni. Síðar í henni kemur fram að sveitarfélögin hafa aukið þjónustu sína og aukið útgjöld sín í samneyslunni sem orsaka kannski þetta, þannig að það sé alveg á hreinu. Við skulum reikna nettóáhrifin af þessu öllu, skattalækkunum og hækkun á þjónustugjöldum á sama verðlagi. (LB: Auðvitað er maður að tala ...) Við skulum gera það á sama verðlagi, hv. þingmaður. (Gripið fram í.) Það er verkið. Við erum alveg óhræddir við það.