Aukatekjur ríkissjóðs

Miðvikudaginn 08. desember 2004, kl. 19:15:08 (3014)


131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[19:15]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ánægjulegt þegar hv. þm. Gunnar Birgisson fer að ræða um tillögur okkar við fjárlagaafgreiðsluna. Þar hefur hv. þm. ekki heldur fylgst nægilega vel með. Þegar hann skoðar allar tillögur okkar getur hann séð að við vorum að skila auknum afgangi á ríkissjóði þannig að þetta var tóm vitleysa hjá honum, því er verr og miður. Það er líka fróðlegt að vita að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ígrundaða stefnu varðandi aukatekjur ríkissjóðs og að þær skuli verðtryggðar. Það er fróðlegt.

Aðeins vegna þess misskilnings sem hér hefur gætt held ég að það sé nauðsynlegt að fara örlítið yfir tölur í því sem munar kannski mestu í hinni auknu skattheimtu ríkisstjórnarinnar, skattleysismörkunum. Ég skal reyna að hafa tölurnar fáar þótt ég viti að hv. þm. sé talnaglöggur og geti tekið við töluverði magni. Við skulum horfa á skattleysismörkin af því að því var haldið fram að þar kæmi þetta eitthvað betur úr. Skattleysismörkin núna eru 71.269 kr. Ef skattleysismörkin á tímabilinu 1995–2004 hefðu fylgt launavísitölu (Gripið fram í: Launa?) væru skattleysismörkin 114.015 kr. á mánuði. Mismunurinn er upp á 42.746 sem skilar með auknum skatttekjum ríkissjóðs rúmlega 42 milljörðum kr. Ef skattleysismörkin hefðu fylgt neysluverðsvísitölu væru þau 85.709 á mánuði í stað 71.269, þ.e. mismunurinn er 14.440. Þetta þýðir tæpa 15 milljarða á ári fyrir ríkissjóð.

Herra forseti. Hv. þm. talaði um að það ætti að vera samræmi í hlutunum og að það ætti að fylgja vísitölum. Það væri fróðlegt að fá að heyra hjá hv. þingmanni hvorri vísitölunni hann vill fylgja varðandi skattleysismörkin, launavísitölunni eða neysluverðsvísitölunni. Ég held að það sé sama hvorri við fylgjum. Við sjáum að næg er innstæðan til að dreifa einhverju örlitlu til baka.