Greiðslur yfir landamæri í evrum

Miðvikudaginn 08. desember 2004, kl. 19:22:58 (3016)


131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Greiðslur yfir landamæri í evrum.

212. mál
[19:22]

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munum sitja hjá við afgreiðslu þessa máls. Við höfum stutt það að óþarfir þröskuldar og hindranir í viðskiptum verði fjarlægð og við höfum stutt tillögur þess efnis, hvort sem þær lúta að hinu Evrópska efnahagssvæði eða annars staðar. Við viljum auðvelda aðgang íslenskra fyrirtækja að mörkuðum erlendis.

Hér er um það að ræða að gjöld fjármálastofnana vegna greiðslna í evrum yfir landamæri verði hliðstæð þeim sem tekin eru fyrir greiðslur innan lands. Við hefðum viljað að þetta hefði verið látið gilda almennt um gjaldmiðla, ekki evruna einvörðungu.

Í annan stað mun þetta leiða til einhverra millifærslna innan bankakerfisins hér sem er ekki fyrirséð hverjar verða og hvar byrðarnar munu lenda þannig að í þessu tilviki treystum við okkur ekki til að styðja þetta þingmál.