Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 16:46:48 (3201)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:46]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi gjarnan spyrja hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hvað hann mundi kalla það, hvaða hugtak hann mundi nota til að lýsa því þegar gjald, t.d. samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs, hækkar ekki frá 1997 til 2004. Það er ákveðin tiltekin upphæð, segjum þúsund krónur árið 1997. Það er ekki tekin nein ákvörðun á Alþingi um að hækka þetta gjald til 2004 þannig að gjaldið lækkar um einhverja tiltekna prósentu, kannski 30% að raungildi, gjaldið er að raungildi 30% lægra í dag en það var segjum árið 1997 þegar núverandi lög um aukatekjur ríkissjóðs voru sett. Er þetta skattalækkun? Ég velti því fyrir mér. Ég held að við komumst ekki hjá því að kalla það skattalækkun þegar svoleiðis er. Ef við notum þá viðmiðun höfum við t.d. lækkað skatta á léttu víni og bjór um 30% á undanförnum árum. Við höfum lækkað fjölmörg gjöld sem heyra undir aukatekjur ríkissjóðs um prósentur. Núna er verið að leggja til 10% hækkun en mörg þessara gjalda hafa raunverulega lækkað kannski um 30% frá því að þau voru ákveðin síðast.

Ég velti fyrir mér: Er það kannski pólitík Samfylkingarinnar að það eigi að ná fram skattalækkunum í samfélaginu með því að frysta ákveðin krónutölugjöld, krónutöluskatta, en ná alltaf meiru og meiru inn í gegnum tekjuskattana?