Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 16:48:42 (3202)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:48]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki alveg áttað mig á því hvað skattaprinsum Sjálfstæðisflokksins er órótt undir þessari umræðu og hlaupa hér upp hver um annan þveran.

Hv. þingmaður spyr einmitt: Hvað ef gjöldin hækka ekki miðað við verðlagsvísitölu, er það þá skattalækkun? Fyrsta svarið sem kemur náttúrlega upp í hugann er: Það fer allt eftir því hver fjárþörf ríkisins er. Er nauðsynlegt að hækka þessa skatta? Augljóslega, sökum þess að ríkissjóður er að eyða það miklu.

Þá spyrja menn næst: Ef þetta fylgir verðlagsþróun, er það hækkun eða lækkun? Það er a.m.k. hækkun á gjöldum en menn geta síðan farið yfir raunhækkunina. En þá kemur náttúrlega hin hliðin á sama peningi vegna þess að ef gjöld og skattar eru verðtryggðir þá hefði maður haldið að viðmiðunarbætur og aðrar viðmiðunarfjárhæðir væru það líka. Og bara til þess að fjalla kannski örlítið um það þá sé ég hér á töflu sem unnin er upp úr reikningum fjármálaráðuneytisins, það er rétt að styðjast bara við þá útreikninga, að þar kemur fram að ef skattleysismörk hefðu fylgt launavísitölu værum við að tala um að ríkissjóður yrði af 42 milljörðum á ári. Eru það þá skattahækkanir með sömu röksemdafærslu og hv. þingmaður hafði áðan?

Ef menn segja sem svo að launahækkanir hafi verið það miklar og ekki hafi verið rétt að tengja þetta við launavísitölu. Gott og vel. Það er röksemdafærsla, en það þýðir þá væntanlega að ríkið er að taka stærri hlut til sín en áður miðað við það sem einstaklingurinn fær í launahækkun. Tökum þá neysluvísitöluna, ef við miðum við hana, miðum við þá verðlagsþróun sem hv. þingmaður er að tala um, þá erum við að tala um tæpa 17 milljarða á ári sem ríkið hefði orðið af ef þessar viðmiðunarfjárhæðir og skattleysismörk hefðu fylgt neysluvísitölunni.

Hv. þingmaður getur því ekki komið hér upp og sagt að ef einhverjar krónur fylgi ekki verðlagsþróun þá sé um skattalækkun að ræða en fjallað svo ekkert um þetta. En kjarninn er (Forseti hringir.) aftur á móti þessi og snýst um það: (Forseti hringir.) Er nauðsynlegt fyrir ríkið að hækka skatta vegna mikilla útgjalda? Og hv. þingmaður hefur svarað því játandi.