Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 09. desember 2004, kl. 17:31:00 (3217)


131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[17:31]

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér heyrist hv. þingmaður vera að segja eitthvað á þá leið að raunaukning til heilbrigðisútgjalda hafi orðið vegna þess að búið sé að einkavæða, það sé dýrari kostur. (ÖJ: Ég var að taka dæmi.) Já, taka dæmi. Ég held að það sé alls ekki þannig. Heilbrigðiskerfið veitir mjög góða þjónustu en hluti af henni er að verða dýrari, t.d. lyfin, eins og búið er að fara yfir m.a. í heilbrigðis- og trygginganefnd. En við erum að veita mjög góða þjónustu og slíkt kostar fé.

Ég tel vel koma til greina að skoða blandaðan rekstur í heilbrigðiskerfinu eins og annars staðar, það eru til alls konar útfærslur á því. Mörg félagasamtök reka hluta af heilbrigðisþjónustunni í einkarekstri og sjálfseignarstofnunum, o.s.frv. Það eru til ýmsar stofnanir og ýmis rekstrarform á því. Auðvitað eigum við að gera kröfur um að þegar slíkir samningar eru gerðir séu þeir eins hagkvæmir og hægt er. Ég tel að þar séum við á góðri leið með því að skoða ýmis form í rekstri og ég hef ekkert við það að athuga.

En það sem ég vil leggja áherslu á í ræðu minni, virðulegur forseti, er að á sama tíma og skattar eru lækkaðir — sumir hafa kallað þetta mestu skattalækkun Íslandssögunnar — þá er verið að verja velferðarkerfið. Það er raunaukning til heilbrigðis- og tryggingakerfisins upp á 4–5% við þær aðstæður.

Það er líka verið að verja menntakerfið og félagskerfið. Það er verið að gera stórkostlega hluti fyrir fatlaða, sem ég veit að hv. þingmaður þekkir. Við erum því á réttri leið með skattalækkanirnar á sama tíma og við erum að verja velferðarkerfið. (ÖJ: Nei.) Jú.