131. löggjafarþing — 54. fundur,  10. des. 2004.

Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

300. mál
[03:19]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég óska leyfis til að mega ræða saman annars vegar frumvarp sem kveður á um að fella niður lögin um Lífeyrissjóð sjómanna og hins vegar frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, vegna þess að frumvarpið sem gengur út á að fella niður hin sérstöku lög sem gilda um Lífeyrissjóð sjómanna leiða til þess að starfsemi Lífeyrissjóðs sjómanna falli þar með undir hin almennu lög um starfskjör og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

Sá sem hér stendur hefur ásamt hv. þm. Ögmundi Jónassyni og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni lagt fram breytingartillögu af því tilefni að fella á niður lögin um Lífeyrissjóð sjómanna. Efnislega snýr hún að sérstöku ákvæði í Lífeyrissjóði sjómanna. Eins og flestir vita starfa sjómenn sem greiða í lífeyrissjóð á skipum og skip eru náttúrlega för sem hægt er að sigla á milli landa og þar af leiðandi er hægt að breyta eignaböndum, þetta er ekki eins og einhver starfsemi í borginni eða á landi sem byggist á fasteign eða húsnæði eða öðrum slíkum rekstri. Oft á tíðum rekur útgerðarfélag bara eitt skip og þá er eign viðkomandi félags skipið.

Þess vegna var á sínum tíma, meðan Lífeyrissjóður sjómanna hét Lífeyrissjóður togarasjómanna, sett ákvæði um að hægt væri að taka lögveð í skipum fyrir lífeyrisiðgjöldum skipverja. Það var orðað nákvæmlega eins og það er orðað í breytingartillögu okkar þar sem við leggjum til að ákvæðið verði tekið upp í almennu lögin um lögveð í skipum, ákvæðið úr lögunum um Lífeyrissjóð sjómanna verði tekið upp og sett í almenna lagabálkinn að því er varðar lífeyrisiðgjöld sjómanna og mundi þá hljóða svo:

Við bætist ný grein sem verði 1. gr., svohljóðandi:

Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein sem hljóðar svo:

Lífeyrisiðgjöld skipstjóra, skipverja og annarra sem ráðnir eru á skip skulu hvíla sem lögveð á hlutaðeigandi skipi og ganga fyrir öllum öðrum veðum. Heimilt er að krefjast nauðungarsölu á viðkomandi skipi án undangengins dóms, sáttar eða aðfarar.

Þannig var þetta sett upp á sínum tíma til að tryggja með sem bestum hætti að hægt væri að ná iðgjöldum í lífeyrissjóðinn með því að hafa forgang í því að tryggja lögveð í skipum.

Við, flutningsmennirnir þrír, teljum sem sagt eðlilegt við þessa breytingu, við niðurfellingu laga um Lífeyrissjóð sjómanna, að færa ákvæðin yfir í almennu lögin og tryggja þar með að réttur sjómanna verði ekki lakari en áður að því leyti að hægt verði enn um sinn að taka lögveð í skipum fyrir tryggingu lífeyrisiðgjalda af launum sjómanna. Þess vegna leggjum við þessa breytingu til. Hún er, eins og ég hef gert grein fyrir og vonandi allir skilið, mjög einföld. Það er einfaldlega verið að reyna að tryggja að þau réttindi sem stóðu á bak við iðgjöld til Lífeyrissjóðs sjómanna verði þar áfram og tryggi þar með innheimtuna eins og best verður á kosið ef svo illa skyldi fara að viðkomandi fyrirtæki sem gerir út skip sé orðið illa statt fjárhagslega. Menn gætu þá tekið þá ákvörðun að flagga skipinu t.d. úr landi, sem væri eina eign útgerðarfélagsins.

Eins og menn vita frá þróun seinni ára hefur verið tiltölulega auðvelt að flagga skipum úr landi, færa þau í skipaskrá annarra landa og undir eignarbönd fyrirtækja sem annaðhvort eru skráð í því landi eða í þriðja landinu og skipin lenda þá undir svokölluðum hentifána.

Þetta er sérstakt mál að því leyti að skipin eru jú færanleg frá okkar ríki og til einhvers annars ríkis sem er ekki sama staða og kemur almennt upp hjá starfsmönnum fyrirtækja. Þess vegna teljum við full rök fyrir því að breytingartillagan komi fram. Við mælumst til þess í mestu vinsemd að stjórnarliðar skoði hana því hún breytir ekki efni málsins að neinu leyti. Lögin um Lífeyrissjóð sjómanna yrðu felld niður en þetta sérstaka ákvæði tapaðist ekki sem baktrygging fyrir innheimtu lífeyrisiðgjalda. Það væri ekki verið að rýra réttarstöðu sjómanna að neinu leyti að því er við fáum séð með því að gera þetta.

Því miður hefur á undanförnum árum nokkrum sinnum þurft að grípa til þess að rýra réttarstöðu sjómanna við breytingar á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna varðandi réttindainnvinnslu og réttindi sem menn hafa talið sig eiga þar. Ég minni sérstaklega á 60 ára regluna og þær deilur sem urðu um hana við íslenska ríkið og málaferli, en eins og menn muna var það félagsmálapakki sem var færður sjómannastéttinni á sínum tíma en reyndist engin inneign fyrir og sjómenn í Lífeyrissjóði sjómanna urðu að taka á sig.

Virðulegur forseti. Málið er ekki flókið og ætti varla að vefjast fyrir alþingismönnum, eftir að hafa margsinnis þurft að greiða atkvæði um að skerða lífeyrisréttindi sjómanna, að veita þeim þessa tryggingu. Ef það kemur í ljós innan einhverra ára að tryggingin er ónauðsynleg er svo sem hægt að fella hana niður en ég held að hún sé engum til skaða. Hún er búin að vera í hálfa öld í lögum um Lífeyrissjóð sjómanna og ég veit ekki til þess að hún hafi valdið þar neinum skakkaföllum öðrum en þeim að menn hafa ekki getað farið með skip úr landi og ekki losað þau undan lögveðinu og orðið að greiða gjöldin til lífeyrissjóðsins og einmitt markmið tillögunnar að reyna að tryggja það. Ég tel að nóg sé komið af því að veikja réttarstöðu sjómanna og mælist eindregið til þess að þingmenn horfi allir jákvætt á þessa tiltölulega litlu og einföldu breytingu sem ég tel að raski ekki þeim markmiðum að leggja niður lögin um Lífeyrissjóð sjómanna og opna á þá möguleika sem menn telja að það leiði til, m.a. ef til vill til sameiningar sjóðsins við aðra sjóði.