Skráning og mat fasteigna

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 11:14:24 (3408)


131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Skráning og mat fasteigna.

335. mál
[11:14]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það er auðvitað fjarstæða að hér sé um að ræða nýja tekjuöflun. Hér er um að ræða framlengingu til tveggja ára á sérstöku gjaldi sem Fasteignamat ríkisins hefur haft til að byggja upp Landsskrá fasteigna í landinu sem ég hélt til þessa dags að væri mikið framfaramál. Hún hefur verið byggð upp á Akureyri af miklum metnaði. (Gripið fram í: 50% …) Ekki hefur tekist að ljúka þessu verkefni og ný hafa bæst við, m.a. vegna jarðaskrár og fleiri atriða sem Alþingi sjálft hefur ákveðið að fela stofnuninni. Þess vegna er þetta eðlileg framlenging til tveggja ára á verkefninu og þeim tekjustofni sem því hefur fylgt.

Ef eitthvað er subbulegt í þessu máli, herra forseti, er það málflutningur formanns Samfylkingarinnar sem veit ekki sitt rjúkandi ráð í skattamálum, eins og ég hef margsagt hér í dag, ekki sitt rjúkandi ráð.