Úrvinnslugjald

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 12:28:57 (3430)


131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Úrvinnslugjald.

394. mál
[12:28]

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég saknaði þess í ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að hann fagnaði því að verið er að lækka gjöld um 125 millj. kr. en það kemur örugglega seinna fram í máli hans. Látum það liggja á milli hluta.

Þingmaðurinn ræddi mikið um frjálsu samningana sem tengjast sjávarútveginum. Ég verð að viðurkenna að mér þótti tónninn svolítið neikvæður svo ég taki ekki sterkar til orða. Upplýst hefur verið í nefndinni að menn vita ekki til þess að um neitt vandamál sé að ræða. Það var undir veiðarfærum að þar sé almenna reglan sú að þau ættu að skila sér til lands og vera fargað eftir þeim reglum og aðferðum sem menn telja bestar. Þar af leiðandi tel ég allra hluta vegna og hélt að ég og hv. þingmaður værum sammála um það að vilja hafa sveigjanleika í þessum hlutum eins og öðrum þó að það sé auðvitað mikið markmið hjá okkur að sjá til þess að umhverfismálin séu í sem allra besta standi. Það hlýtur að vera útgangspunktur. Það breytir því ekki að við eigum að sýna sveigjanleika þegar við erum að ná þeim markmiðum.

Eins og hv. þingmaður þekkir mjög vel er þjóðfélag okkar um margt sérstakt og ekki samanburðarhæft við önnur samfélög. Við höfum haft mikinn sveigjanleika á mörgum sviðum sem hefur nýst okkur vel. Ég mundi ætla að það væri mikill kostur þegar menn geta náð markmiðum sínum með hinum svokölluðu frjálsu samningum og að ábyrgir hagsmunaaðilar gangi í það verk. Ég hélt að ég og hv. þingmaður værum sammála um það.