Háskóli Íslands

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 16:16:39 (3468)


131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[16:16]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er með eina spurningu til hæstv. menntamálaráðherra sem ég óska eftir að hún svari í andsvari sínu. Hún lýtur að því að þegar rektorarnir þrír heimsóttu menntamálanefnd fyrir tveimur dögum kom í ljós að skilningur þeirra er sá að skrásetningargjöld að upphæð 45 þús. kr. á nemanda komi heil og óskipt til háskólanna. Þessu sjónarmiði sínu til staðfestingar benda þeir á upphafsmálsgrein í greinargerð hæstv. ráðherra með frumvarpinu sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Í forsendum frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2005 eru kynnt áform um að hækka skrásetningargjöld í ríkisháskólum úr 32.500 kr. í 45.000 kr. Er það í samræmi við óskir ríkisháskólanna og við það miðað að fjárhæð skrásetningargjaldanna renni óskipt til þeirra. Ekki er gert ráð fyrir því í forsendum fjárlagafrumvarpsins að innheimta gjaldanna komi til frádráttar fjárveitingum til ríkisháskólanna á fjárlögum.“

Hvernig stendur á þessu í ljósi þess að nú sé ásetningurinn einungis sá að hækkun um 12.500 kr. á nemanda renni óskipt til skólanna?