Lánasjóður íslenskra námsmanna

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 17:18:42 (3491)


131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

330. mál
[17:18]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við 2. umr. um þetta mál gerði ég grein fyrir fyrirvara okkar hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem fyrst og fremst laut að b-lið 1. gr. frumvarpsins, því atriði er varðar frestun á réttaráhrifum úrskurðar málskotsnefndarinnar. Ég óskaði eftir því við hv. formann menntamálanefndar að við fengjum í heimsókn til nefndarinnar stjórnsýslufræðing sem gæti varpað betra ljósi á þetta mál fyrir okkur en mér þótti búið að gera eftir 2. umr.

Í morgun hélt menntamálanefndin fund og fékk á sinn fund Pál Hreinsson háskólaprófessor, sérfræðing í stjórnsýslurétti. Ég verð að segja að Páli Hreinssyni tókst afar vel að útskýra fyrir þeirri sem hér stendur a.m.k. grunnprinsippin í þessu ákvæði frumvarpsins. Ég er ekki jafnflink og Páll Hreinsson að ég geti haft þetta nógu vel eftir honum kannski. En hann sagði okkur að BHM, sem hafði gefið nefndinni umsögn og ég hafði tilhneigingu til að vera sammála, þyrfti í sjálfu sér ekki að óttast að heimildin væri á nokkurn hátt óeðlileg eða of rúm. Hann nefndi máli sínu til stuðnings ákveðnar greinar upplýsingalaga og almannatryggingalaga. Hann svaraði gagnrýni BHM um það atriði að greinin samrýmdist ekki meginreglum stjórnsýsluréttar á þann hátt að það væri mögulega rétt svo langt sem það næði því að í upplýsingalögum væri ákveðin málamiðlun þar sem reglur væru nokkuð matskenndar en engu að síður væri heimiluð frestun réttaráhrifa úrskurðar þar um sjö daga. Síðan nefndi hann til sögunnar almannatryggingalögin og þar sagði hann að væri önnur svipuð heimild með nokkuð svipaðar takmarkanir og að hún væri eins og þessi heimild takmörkuð af því að um veruleg fjárútlát fyrir viðkomandi sjóð yrði að ræða — hér í þessu tilfelli lánasjóðinn — og þá í flestum tilfellum yrðu það að vera óvænt veruleg fjárútlát.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að það var nokkuð sannfærandi að hlusta á háskólaprófessorinn sem sagði að fresturinn sem settur er upp hér í ákvæðinu væri nokkuð raunhæfur, sérstaklega miðað við það að hinn sjö daga frestur sem í upplýsingalögunum er í sambærilegu ákvæði hefði reynst of skammur. Sömuleiðis sagði háskólaprófessorinn að forsendan fyrir beitingu reglunnar væri það þröng að ekki væri hætta á því að hún yrði á nokkurn hátt misnotuð og það væri ljóst að bæði stjórn lánasjóðsins og málskotsnefndin þyrftu að veita samþykki fyrir því að reglunni yrði beitt.

Með þeim rökum sem háskólaprófessorinn færði fram á fundi nefndarinnar í morgun sé ég ekki ástæðu til að greiða atkvæði gegn frumvarpinu. Ég hef skilning á þessu ákvæði frumvarpsins núna sem ég hafði ekki áður þannig að ég tel að hér sé ekki verið að brjóta stjórnsýslurétt í sjálfu sér og alls ekki að ákvæðið sé þarflaust eftir að hafa fengið þessar útskýringar. Það vil ég þakka fyrir og lýsi því hér yfir að afstaða mín til ákvæðisins er þar með nokkuð ljós. Ég leggst ekki gegn því á neinn hátt.

Að öðru leyti vil ég bara útreka það sem ég sagði í ræðu minni við 2. umr. um frumvarpið. Ég er í sjálfu sér sátt við meginprinsippið í frumvarpinu og það erum við hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þ.e. að það eigi að lækka endurgreiðslubyrði námsmanna um eitt prósentustig. Við hefðum engu að síður viljað fara aðra leið, þá leið sem námsmannahreyfingarnar og BHM lögðu til. Hún varð ekki fyrir valinu. En af því að grunnprinsippið er okkur að skapi komum við til með að styðja málið við lokaatkvæðagreiðslu þess eftir 3. umr.