Háskóli Íslands

Föstudaginn 10. desember 2004, kl. 17:30:43 (3494)


131. löggjafarþing — 55. fundur,  10. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[17:30]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Nú fyrir stundu lauk umræðu um þetta mikilvæga mál sem staðið hefur í töluverðan tíma í þeim þremur umræðum sem að baki eru. Niðurstaðan er sú að hér er stigið stórt skref í átt að innheimtu skólagjalda á grunnnám í ríkisháskólunum, sem er alvarleg og róttæk stefnubreyting í okkar menntapólitík án þess að það hafi komið til umræðu í þingsölum sem slíkt. Þá kom það fram afdráttarlaust í svörum hæstv. menntamálaráðherra áðan að ekki stendur til að lána fyrir þessum skólagjöldum vegna þess að þau eru falin í búningi skrásetningargjalda. Feluleikurinn veldur því að námsmenn eiga ekki kost á því að fá lánað fyrir skólagjöldunum.

Ég harma eindregið að það skref sé stigið hér nú að skólagjöld séu innleidd með þessum hætti í ríkisháskólunum á Íslandi og segi því nei.