Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 73. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 73  —  73. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um sérdeild fyrir fanga á aldrinum 18 til 24 ára.

Flm.: Ágúst Ólafur Ágústsson, Össur Skarphéðinsson, Margrét Frímannsdóttir,


Guðrún Ögmundsdóttir, Kristján L. Möller, Katrín Júlíusdóttir,
Þórunn Sveinbjarnardóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Helgi Hjörvar,
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir,
Jón Gunnarsson.

Alþingi ályktar að í fyrirhuguðu fangelsi á Hólmsheiði við Nesjavallaveg verði sérdeild fyrir fanga á aldrinum 18–24 ára þar sem samneyti þeirra við eldri fanga verði í algjöru lágmarki og aðeins ef brýna nauðsyn ber til.

Greinargerð.


    Þessi tillaga til þingsályktunar var lögð fram á síðasta þingi, 130. löggjafarþingi (þskj. 931, 622. mál) en komst ekki á dagskrá þingsins.
    Í ljósi sérstöðu ungra fanga, á aldrinum 18–24 ára, telja flutningsmenn rétt að í fyrirhuguðu fangelsi á Hólmsheiði við Nesjavallaveg verði sérstök deild fyrir þann aldurshóp.
    Bygging hins nýja fangelsis veitir einstakt tækifæri til að gera ráð fyrir sérstakri deild fyrir unga fanga. Í umræðum um nýja fangelsið hefur hins vegar komið fram að ekki hefur verið gert ráð fyrir slíkri sérdeild. Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun er bygging nýja fangelsisins nú í biðstöðu þar sem ekki er gert ráð fyrir fé til þess í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2005. Það er því enn tækifæri til að gera ráð fyrir sérdeild fyrir unga fanga á aldrinum 18–24 ára. Ef ekki er hægt að gera ráð fyrir sérdeild fyrir unga fanga í nýja fangelsinu eða bygging þess frestast verulega telja flutningsmenn að breytingar á núverandi fangelsum séu nauðsynlegar í því skyni.
    Þar sem meginröksemdin fyrir sérstöðu ungra fanga á aldrinum 18–24 ára eru hugsanleg slæm áhrif þeirra eldri á þá yngri þyrfti slík sérdeild að vera að mestu aðskilin frá öðrum deildum fangelsisins. Vitaskuld yrði unnt að samnýta ýmiss konar þjónustu fangelsins, svo sem aðstöðu fyrir heimsóknir, afþreyingu, vinnu, mötuneyti og fleira. Þess yrði hins vegar ævinlega að vera gætt að ungir fangar yrðu út af fyrir sig á þessum svæðum nema þar sem það er bundið miklum erfiðleikum t.d. við vinnu.
    Það ber að taka fram að starfræksla sérdeildar fyrir unga fanga þarf ekki að koma í veg fyrir frekari deildarskiptingar innan fangelsisins t.d. fyrir fyrirmyndarfanga á öllum aldri. Sömuleiðis munu fangelsismálayfirvöld eftir sem áður hafa úrræði til að bregðast við hugsanlegum óæskilegum afleiðingum slíkrar deildarskiptingar, svo sem klíkumyndun eða einelti.

Sérstaða fanga á aldrinum 18–24 ára.
    Fangar á aldursbilinu 18–24 ára hafa margs konar sérstöðu. Ungir fangar eru sérstaklega viðkvæmur hópur og ekki er æskilegt að þeir afpláni dóma í samneyti við eldri afbrotamenn. Líta ber svo á að við afplánun ungra fanga sé sérstaklega unnið að því að koma í veg fyrir frekari afbrot. Afplánun þeirra sé því liður í betrun, en þeirri betrun getur verið ókleift að ná fram með því að vista unga fanga í samneyti við eldri fanga, sem sumir hverjir eru síbrotamenn. Endurhæfing er líklegri til að skila betri árangri séu ungu fangarnir í eins jákvæðu og uppbyggilegu umhverfi og hugsast getur miðað við aðstæður. Sérdeild fyrir unga afbrotamenn býður einnig upp á margs konar sértæk úrræði fyrir þennan aldurshóp, t.d. á sviði vímu- og geðmeðferðar.
    Ungir fangar hafa einnig þá sérstöðu að oft hafa þeir einungis gerst sekir um eitt eða fá afbrot sem jafnvel eru í sumum tilfellum fremur smávægileg. Margoft hefur verið sýnt fram á að samneyti ungra fanga við eldri, og jafnvel forhertari fanga, geri þeim yngri ekkert gott og geti í sumum tilvikum haft afar slæm áhrif. Slíkt samneyti getur beinlínis haft hvetjandi áhrif á unga afbrotamenn til frekari þátttöku í afbrotum.
    Einhver aldursmörk verða að vera og þykir flutningsmönnum hóflegt að miða við 24 ára aldur þegar afplánun hefst. Það má leiða líkur að því að einstaklingar undir þeim aldri hafi ekki náð fullum félagslegum þroska og að þeim sé því hætta búin af samneyti og áhrifum frá eldri afbrotamönnum.

Engin sérstök fangelsi eða deildir fyrir unga fanga.
    Samkvæmt 10. gr. laga nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist, er heimilt að skipta fangelsum upp í deildir. Í 1. mgr. 8. gr. sömu laga kemur fram að taka skuli tillit til aldurs við ákvörðun um í hvaða fangelsi viðkomandi fangi skuli taka út refsingu. Í 3. mgr. 14. gr. frumvarps um fullnustu refsinga, 465. mál 130. löggjafarþings, var gert ráð fyrir deildaskiptingu fangelsis. Þetta frumvarp var dregið til baka af hálfu dómsmálaráðherra.
    Í skýrslu nefndar um unga afbrotamenn frá 1999 kemur fram að hérlendis hafi ekki verið sérstök fangelsi fyrir unga fanga. Slíkar stofnanir þekkjast þó víða erlendis. Hins vegar voru hér lengi uppi slík áform og komu þau víða fram í lögum.
    Í 43. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, var að finna heimild til að ákveða með reglugerð að fangar, sem dæmdir höfðu verið í fangelsi innan 22 ára aldurs, skyldu hafðir sér í fangelsi, eða í sérstakri fangelsisdeild, og látnir sæta annarri meðferð en aðrir fangar. Skyldi þá lögð sérstök áhersla á að efla andlegan og líkamlegan þroska fanganna með kennslu, líkamsæfingum og hentugri útivinnu, svo og með því að kenna þeim atvinnugreinar sem komið gætu þeim að gagni þegar þeir hefðu fengið frelsi sitt aftur. Þó var gert ráð fyrir því að dómsmálaráðherra gæti ákveðið eftir tillögu fangelsisstjórnar að einstakir fangar, sem fangelsisdóm hefðu hlotið á þessum aldri, skyldu sæta almennri fangameðferð. Reglugerð á grundvelli þessarar heimildar var þó aldrei gefin út og ákvæðið var fellt úr gildi með lögum nr. 48/1988.
    Samkvæmt 4. gr. laga um ríkisfangelsi og vinnuhæli, nr. 18/1961, átti að stofna unglingafangelsi í sveit fyrir 25 fanga og skyldi þar fullnægja fangelsisrefsingum þeirra sem við dómsuppsögu höfðu ekki náð 22 ára aldri. Um fangelsi þetta átti að fara svo sem ákveðið var með 43. gr. almennra hegningarlaga. Þessi lög voru leyst af hólmi með lögum um fangelsi og vinnuhæli, nr. 38/1973, en í 4. gr. þeirra var að finna hliðstætt ákvæði um unglingavinnuhæli. Með gildandi lögum um fangelsi og fangavist, nr. 48/1988, sem komu í stað laga nr. 38/1973, var fallið frá áformum um unglingavinnuhæli, m.a. með vísun í breyttar áherslur í fangelsismálum. Hugmyndin um aðskilnað fanga vegna aldurs er því ekki ný af nálinni en hún hefur aldrei komist til framkvæmda hér á landi eins og hún hefur gert víða annars staðar.

Fangar á aldrinum 15–18 ára.
    Sakhæfisaldur er samkvæmt almennum hegningarlögum 15 ár. Nú þegar er til heimild fyrir því að bjóða ungum afbrotamönnum á aldrinum 15–18 ára að taka út refsingu sína á meðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu. Nái viðkomandi einstaklingur 18 ára aldri á meðan meðferð stendur getur þó meðferðartíminn eftir það ekki varað lengur en í 6 mánuði eftir að aldursmarkinu er náð.
    Á árinu 2002 var þó enginn einstaklingur á meðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu á þessum grundvelli. Hins vegar var þremur einstaklingum á þessu aldursbili boðið að afplána dóma sína á meðferðarheimilum en þeir höfnuðu því allir.
    Með samkomulagi Fangelsismálastofnunar og Barnaverndarstofu er ungum föngum gert kleift að afplána refsingu utan fangelsa og vistast í meðferð með öðrum börnum. Þetta fyrirkomulag verður að teljast afar jákvætt, enda bendir margt til þess að ungir afbrotamenn hafi ekki hag af því að vera vistaðir innan um eldri fanga.
    Í c-lið 37. gr. samnings um réttindi barnsins, sem var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember 1989 og fullgiltur af Íslands hálfu 28. október 1992, kemur fram að halda skuli hverju því barni sem svipt er frjálsræði sínu aðskildu frá fullorðnum, nema ef talið er að því sé fyrir bestu að gera það ekki. Hér er átt við einstakling yngri en 18 ára. Við fullgildingu samningsins var enginn fyrirvari gerður af Íslands hálfu. Hins vegar var lögð fram yfirlýsing við c-lið 37. gr. þar sem kemur fram að í íslenskum lögum séu ekki ákvæði um að ungum föngum skuli halda aðskildum frá eldri föngum. En með hliðsjón af framangreindu samkomulagi Fangelsismálastofnunar og Barnaverndarstofu verður að telja að núverandi fyrirkomulag afplánunar ungra afbrotamanna á aldrinum 15–18 ára sé heppilegt.
    Þrátt fyrir þessi úrræði fyrir afbrotamenn á aldrinum 15–18 ára er hins vegar rétt og nauðsynlegt að viðurkenna sérstöðu þeirra fanga sem eru eldri en 18 ára en eru ungir engu að síður. Slík sérstaða yrði viðurkennd með starfrækslu sérstakrar deildar innan fangelsis fyrir aldurshópinn 18–24 ára. Slík sérdeild fyrir unga fanga yrði að sjálfsögðu einnig opin þeim einstaklingum á aldursbilinu 15–18 ára sem kjósa að nýta ekki þá heimild að taka út sína refsingu á meðferðarheimilum á vegum Barnarverndarstofu.
    Það er ljóst að sérdeild fyrir afbrotamenn á aldrinum 18 –24 ára yrði ekki einungis ungum afbrotamönnum til hagsbóta heldur einnig samfélaginu í heild, þar sem líta má á þetta úrræði sem forvarnir.