Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 146. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 146  —  146. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð.

Flm.: Birkir J. Jónsson, Halldór Blöndal, Kristján L. Möller,


Steingrímur J. Sigfússon, Sigurjón Þórðarson, Dagný Jónsdóttir,
Arnbjörg Sveinsdóttir, Einar Már Sigurðarson, Þuríður Backman.


    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra undirbúning að stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Haft verði að markmiði að bjóða upp á nám til stúdentsprófs auk þess sem skólinn sérhæfi sig í sjávarútvegsmenntun.
    Ráðherra skipi undirbúningshóp sem í sitji fulltrúi menntamálaráðherra, sem veiti hópnum forustu, fulltrúi ráðherra byggðamála, fulltrúi sjávarútvegsráðherra, fulltrúi Dalvíkurbyggðar, fulltrúi Ólafsfjarðarbæjar og fulltrúi Siglufjarðarkaupstaðar.

Greinargerð.


    Við utanverðan Eyjafjörð búa um 4.500 manns en þar er enginn framhaldsskóli. Ljóst er, samkvæmt skýrslu Hermanns Tómassonar frá árinu 2001, að afgerandi meirihluti foreldra á svæðinu kysi að hafa þar framhaldsskóla og samkvæmt könnun sem gerð var á sama tíma hefði meiri hluti nemenda áhuga á framhaldsskólanámi á svæðinu. Kannanir sýna einnig að brottfall nemenda þaðan í framhaldsskólum á Akureyri er meira en gengur og gerist.
    16–18 ára fólk telst börn eftir að sjálfræðisaldur var hækkaður en fólk á þessum aldri af svæðinu á einungis kost á framhaldsskólanámi fjarri heimili sínu. Æskilegt væri að hægt væri að stunda nám í heimabyggð fram að 18 ára aldri. Einnig mundi framhaldsskóli sinna sí- og endurmenntun á svæðinu, til hagsbóta fyrir íbúa og atvinnulíf.
    Sérhæfing skólans, auk náms til stúdentsprófs, væri á sviði sjávarútvegs. Vagga útgerðar og fiskvinnslu í landinu er við Eyjafjörð og því eðlilegt að þar fari fram menntun skipstjórnarmanna og fiskvinnslufólks. Framhaldsskólahefð er fyrir á svæðinu, t.d. eiga fiskvinnsluskóli og stýrimannaskóli sér langa hefð í Dalvíkurbyggð.
    Mikill stuðningur er við stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð hjá sveitarfélögunum Dalvíkurbyggð, Ólafsfirði og Siglufirði og ljóst að með jarðgöngum um Héðinsfjörð mun samstarf sveitarfélaganna eflast til muna á öllum sviðum. Ljóst er að stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð er mjög mikilvægt verkefni í byggðalegu tilliti enda er fjallað um málið í skýrslu sem verkefnisstjórn um byggðaáætlun Eyjafjarðar hefur skilað iðnaðarráðherra.