Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 630. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 997 —  630. mál.




Skýrsla



samgönguráðherra um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands, samkvæmt beiðni.

(Lögð fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



    Samkvæmt beiðni (á þskj. 953) frá Merði Árnasyni og fleiri alþingismönnum er hér með lögð fram á Alþingi skýrsla um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands
    Óskað var eftir að reynt yrði að greina bæði skammtíma- og langtímaáhrif af veiðunum á ímynd Íslands sem ferðamannalands. Litið yrði á málið með tilliti til helstu markhópa íslenskrar ferðaþjónustu og reynt eftir megni að skoða áhrifin eftir ríkjum og markaðssvæðum, aldri, kyni og menntun. Svarað yrði eftir mætti hver væru viðhorf ferðamanna í helstu markhópum ferðaþjónustunnar til hvalveiða og hvaða breytingum mætti búast við á fjölda ferðamanna til landsins frá hverju markaðssvæði og hverjum markhóp. Þá yrði gerð grein fyrir líklegum áhrifum hvalveiðanna á ferðaþjónustu eftir einstökum greinum, flugþjónustu, gistihúsarekstri, hvalaskoðun o.s.frv.
    Beiðnin var fyrst lögð fram á síðasta löggjafarþingi. Í kjölfar hennar óskaði samgönguráðherra eftir að skýrslan yrði unnin hjá Ferðamálaráði Íslands. Strax var ljóst að til að leita svara við öllum þessum spurningum um hugsanleg áhrif á ímynd á öllum markaðssvæðum og hjá öllum markhópum annars vegar til skemmri tíma og hins vegar til lengri tíma yrði að ráðast í verulegar kannanir á öllum markaðssvæðum. Leitaði Ferðamálaráð því eftir lauslegu kostnaðarmati sérhæfðs fyrirtækis í gerð slíkra viðhorfskannana áður en lengra yrði haldið. Samkvæmt því mati yrði kostnaður allt að 20 millj. kr.
    Ráðherra ákvað síðan að óska eftir því við Ferðamálaráð að það leitaðist við að nálgast málið á annan hátt og takmarka vinnuna með því að taka saman fyrirliggjandi gögn og upplýsingar í stofnuninni. Samantekt upplýsinganna hefur síðan dregist af ýmsum ástæðum, en ekki síst þeim að þess var freistað að bíða stöðugt eftir nýjustu gögnum sem gætu gefið frekari innsýn í málið. Nú síðast í desember 2004 lágu fyrir niðurstöður úr könnun Ferðamálaráðs meðal erlendra ferðamanna sumarið 2004.

Ímynd og viðhorf.
    Hér á eftir fara ýmis gögn sem eru fyrirliggjandi svo og skoðanir og viðhorf ýmissa aðila til málsins auk upplýsinga um umfang ferðaþjónustu árin 2003 og 2004. Í þeirri tölfræði kemur að sjálfsögðu ekkert fram um ímynd. Hún sýnir eingöngu breytingar á umfangi á einstökum mörkuðum frá því að umræddar veiðar hófust, en eins og kemur fram í skýrslubeiðni er eingöngu verið að vísa til hvalveiðanna sumarið 2003.
    Eina markaðssvæðið þar sem reynt hefur verið, með samanburðarhæfum könnunum, að mæla reglulega breytingar á ímynd Íslands ef svo má að orði komast er Norður-Ameríka. Þar hafa á vegum samstarfsverkefnisins Iceland Naturally verið gerðar kannanir á viðhorfum íbúa svæðisins til íslenskrar vöru og þjónustu. Í könnun IN árið 1999 sögðu 53% aðspurðra að þeir mundu ekki kaupa vöru eða þjónustu frá löndum sem stunduðu hvalveiðar. Í maí 2004 var hlutfall þeirra sem svöruðu spurningunni á sama hátt 34%. Árið 1999 sögðust 75% aðspurðra í umræddri könnun IN vera mótfallnir því að „takmörkuð nýting hvala skyldi leyfð“. Í maí 2004 var hlutfall þeirra sem svöruðu þessari spurningu á sama hátt 49%.
    Sé litið til þessara niðurstaðna má draga þá ályktun að dregið hafi verulega úr neikvæðum viðhorfum til hvalveiða almennt í Norður-Ameríku á þessu fimm ára tímabili. Rétt er að benda á að IN gerir seinni könnunina eftir að Íslendingar höfðu sumarið áður stundað vísindaveiðar á hrefnu. Meginniðurstaða könnunar IN er að Íslandi hafi á þessu fimm ára tímabili tekist að skapa jákvæðari ímynd til landsins.
    Í viðhorfskönnunum Ferðamálaráðs meðal erlendra ferðamanna er ekki spurt beint um afstöðu gestanna til hvalveiða eða hugsanleg áhrif þeirra á þá ímynd sem gestirnir hafa af landinu. Hins vegar eru ýmsar spurningar sem lúta að viðhorfi gestanna og upplifun þeirra, áhuga þeirra á að koma aftur og fleiri atriðum sem hljóta að gefa ákveðna mynd af þeirri ímynd sem gestir hafa við brottför héðan.
    Ekki er hægt að lesa úr niðurstöðunum neina marktæka breytingu á viðhorfi erlendra gesta til landsins eða upplifunar af heimsókninni á milli áranna 2002 og 2004. Nauðsynlegt er að benda á það hér að í þessum könnunum eru eingöngu þeir spurðir sem hingað koma, en ekki gerð könnun meðal almennings á markaðssvæðum okkar, enda, eins og áður hefur komið fram, var horfið frá slíkum könnunum vegna mikils kostnaðar.
    Hluti af ímyndarsköpun felst í umfjöllun fjölmiðla um land og þjóð á markaðssvæðum okkar. Í niðurstöðum könnunar Ferðamálaráðs meðal erlendra ferðamanna í því sambandi kemur m.a. eftirfarandi fram: Spurt er hvort ferðamenn sumarið 2004 hafi séð jákvæða eða neikvæða umfjöllun um Ísland í heimalandi sínu mánuðina fyrir ferðina. Sögðust 30,8% hafa séð jákvæða fjölmiðlaumfjöllun, en 1,6% neikvæða. Samsvarandi tölur sumarið 2002 voru að 28,3% sögðust hafa séð jákvæða umfjöllun, en 0,9% neikvæða umfjöllun.
    Vegna aukinnar kynningar var meiri fjölmiðlaumfjöllun almennt um landið erlendis nú hin síðari ár en 2001–2002 sem getur skýrt það að hlutfallslega fleiri hafi séð fjölmiðlaumfjöllun. Fulltrúar fyrirtækja og hagsmunasamtaka hafa bent á að í kjölfar hrefnuveiða Íslendinga síðsumars 2003 hafi verið mikil neikvæð fjölmiðlaumfjöllun um Ísland á helstu markaðssvæðum okkar. Að því verður vikið nánar síðar.

Umfang ferðaþjónustu.
    Nú liggja fyrir upplýsingar um umfang íslenskrar ferðaþjónustu og hvernig það hefur breyst á einstökum mörkuðum árið 2004 miðað við 2003. Það skal tekið skýrt fram að þær tölur eru ekki mælikvarði á ímynd Íslands á hverju svæði fyrir sig. Eins og áður hefur komið fram verður hún ekki metin nema með viðhorfskönnunum og þá hefði þurft að gera þær áður en veiðar hófust og svo eftir til að fá samanburð.
    Tölurnar um umfang ferðaþjónustu sýna að heildaraukning umsvifa íslenskrar ferðaþjónustu á erlendum samkeppnismörkuðum árið 2004 miðað við 2003 er hlutfallslega meiri en hjá flestum öðrum þjóðum.

Tölur um fjölda gesta 2003 og 2004.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.

























    Oft hefur verið á það bent að ímynd lands og þjóðar sé það sem hvað mestu skiptir þegar unnið er á erlendum samkeppnismarkaði í ferðaþjónustu, með öðrum orðum að samhengi sé á milli ímyndar landsins og samkeppnishæfni á erlendum mörkuðum. Þá hefur oft komið fram í athugasemdum andstæðinga hvalveiða að þær gætu skaðað ímynd Íslands og þannig dregið úr samkeppnishæfni landsins. Er því freistandi að draga þá ályktun, þar sem Ísland náði hlutfallslega meiri árangri en flest önnur lönd á árinu 2004, árinu eftir að umræddar hvalveiðar hófust, að veiðarnar hafi ekki skaðað ímynd landsins sem ferðamannalands á stærstu markaðssvæðum okkar eða meðal helstu markhópa á þeim tíma sem liðinn er frá því þær hófust 2003. En auðvitað er málið flóknara en svo og enn skal bent á að spurningum um hugsanleg áhrif á ímyndina, sérstaklega til langs tíma eins og óskað var eftir, verður ekki svarað nema með viðamiklum sérhæfðum könnunum. Niðurstöður kannana Iceland Naturally í Norður-Ameríku sem áður voru nefndar sýna breytingar á almennum viðhorfum á fimm ára tímabili, 1999–2004, og hljóta að gefa ákveðnar vísbendingar sem hægt er að nota til að reyna að nálgast svör við spurningum um hugsanleg áhrif hvalveiða.

Umsagnir.
    Við gerð skýrslunnar var leitað til nokkurra aðila sem starfa á mörkuðunum. Eftirfarandi svör bárust:
    Skrifstofa Ferðamálaráðs í Norður-Ameríku haustið 2004:
    Eins og málin standa hér í dag þá er ekki hægt að sjá að hvalveiðar okkar séu að hafa áhrif í markaðssetningu landsins. Svo lengi sem hvalveiðarnar snúast um vísindaveiðar á 20 til 30 dýrum þá virðast þær ekki hafa mikil áhrif. Rétt er að taka fram að ástæður þess að ekki fer mikið fyrir neikvæðri umfjöllun og viðbrögðum gætu einnig legið í hinu almenna ástandi hér í landi, svo sem stríðinu í Írak, ótta við hryðjuverk og yfirstandandi kosningar. Um leið og lygnir í þjóðfélaginu ef svo má að orði komast gætu raddir mótmælenda hvalveiða farið að heyrast.
    Ef hvalveiðar við Ísland byrjuðu aftur á viðskiptalegum grunni má gera ráð fyrir sterkum viðbrögðum.
    Breyting í umsvifum í Norður-Ameríku 2003–2004: + 9,2%.
     Skrifstofa Ferðamálaráðs á meginlandi Evrópu haustið 2004:
    Skrifstofan hefur undanfarið verið í sambandi við söluaðila Íslandsferða í Þýskalandi og almennt telja þeir áhrifin af hvalveiðum 2003 og 2004 nær engin.
    Bent er á að um var að ræða tiltölulega fáa hvali og veiðarnar í vísindaskyni.
    Margir söluaðilar gera aftur á móti ráð fyrir meiri áhrifum og sterkari viðbrögðum, ef farið yrði í hvalveiðar á viðskiptalegum grunni á stórhvelum.
    Breyting í umsvifum á meginlandi Evrópu 2003–2004: + 6,2%.
     Skrifstofa Ferðamálaráðs í Bretlandi haustið 2004:
    Það er nokkuð langt síðan að einhver almenn umræða hefur verið í Bretlandi um hvalamálið. Hef rætt nú nýlega við forsvarmenn tveggja stærstu söluaðila Íslandsferða í Bretlandi. Samkvæmt upplýsingum Icelandair Holidays, sem er dótturfyrirtæki Icelandair virðist umræðan um hvalveiðar hafa þagnað í bili a.m.k.
    Hjá fyrirtækinu Arctic Experience kemur fram að bókunum í hvalaskoðunarferðir hjá þeim hafi fækkað, þau segjast fá af og til tölvupóst frá fólki sem mótmælir hvalveiðum en í miklu minna mæli en áður. Bæði fyrirtækin segja að líklega megi þakka, ef svo má að orði komast, heimsmálunum fyrir að þessi umræða hafi að mestu horfið. Íraksstríðið tekur t.d. mikið rúm í breskum fjölmiðlum.
    Breyting í umsvifum í Bretlandi 2003–2004: + 14,0%.

    Samkvæmt niðurstöðum könnunar Ferðamálaráðs fyrir sumarið 2004 fór 36,1% erlendra gesta í hvalaskoðun. Sumarið 2002 sögðust 36,0% hafa farið í hvalaskoðun hér við land. Hlutfallið er því nær það sama sumarið 2002 og 2004, en ferðamönnum fjölgaði verulega á milli þessara ára og því fóru mun fleiri erlendir gestir í hvalaskoðun sumarið 2004 en 2002.

Niðurstaða.
    Eins og ítrekað hefur verið bent á hafa ekki verið unnar kannanir á markaðssvæðum okkar í þeim tilgangi einum að meta áhrif hvalveiðanna 2003 á ímynd Íslands sem ferðamannalands. Erfitt er að sjá að slíkar kannanir muni þjóna tilgangi sínum héðan af.
    Í þessari skýrslu hefur verið safnað saman fyrirliggjandi tölfræðigögnum og niðurstöðum úr almennum könnunum meðal erlendra ferðamanna. Þá hefur verið leitað álits söluaðila á mörkuðunum.
    Ekki verður séð eftir lestur þessara gagna að hvalveiðarnar sumarið 2003 hafi haft áhrif á almenna ímynd Íslands á helstu markaðssvæðum ferðaþjónustunnar. Þar koma aftur á móti fram varnaðarorð um að hvalveiðar í meira umfangi og í atvinnuskyni gætu skaðað ímynd okkar. Sömu varnaðarorð hafa heyrst undanfarið hjá forsvarsmönnum ferðaþjónustunnar á Íslandi.
    Til að kanna hvort líkur séu á þeim skaða væri nauðsynlegt að sérhæfð fyrirtæki í markaðsrannsóknum ynnu rannsóknir á helstu markaðssvæðum okkar á þann hátt sem gert var ráð fyrir í upphaflegri beiðni Alþingis.

Viðauki.

Umfjöllun fjölmiðla og hagsmunaaðila
um áhrif vísindaveiða á íslenska ferðaþjónustu.


    Hér á eftir fara nokkrar viðbótarupplýsingar varðandi annars vegar viðhorf ferðamanna og hins vegar upplýsingar úr fréttum varðandi viðbrögð ýmissa aðila þar sem settar eru fram skoðanir viðkomandi á áhrifum hvalveiða á ferðaþjónustu. Fram koma m.a. viðhorf hagsmunasamtaka svo og einstakra fyrirtækja varðandi hugsanleg áhrif hvalveiða.

Hvalfriðunarsinnar skemma veggspjöld í Lundúnum.
(Morgunblaðið 28. október 2003.)


    Nokkuð er um það að hvalfriðunarsinnar eyðileggi veggspjöld sem Flugleiðir hafa látið setja upp á lestarstöðvum í Lundúnum þar sem ferðir til Íslands eru auglýstar.
    Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Flugleiða, segir að um víðtæka auglýsingaherferð sé að ræða sem hafi hafist um miðjan september og standi yfir fram í miðjan nóvember. Um sé að ræða nokkrar mismunandi útgáfur af veggspjöldum sem komið sé upp á 700 stöðum í öllum neðanjarðarlestastöðvunum í Lundúnum. Herferðin hafi gengið mjög vel og Flugleiðir hafi fengið mikil og góð viðbrögð við henni.
    Hins vegar hafi verið nokkur dæmi þess að hvalfriðunarsinnar hafi skemmt eitthvað af veggspjöldum. Það sé aftur á móti erfitt að fá yfirsýn yfir hvað það sé mikið um þetta, þar sem að veggspjöldin séu hreinsuð og skipt út af starfsfólki lestarstöðvanna jafnóðum og þetta gerist.
    „Við þekkjum allnokkur dæmi um að hvalfriðunarsinnar hafi verið að koma svona skilaboðum á framfæri, en það er ekki hægt að hafa yfirsýn yfir það hvað það er mikið“, sagði Guðjón.
    Hann sagði að andstæðingar hvalveiða væru mjög áberandi í Bretlandi og notuðu flest tækifæri sem gæfust til þess að koma málstaðnum á framfæri. Þeir yrðu áþreifanlega varir við það í sínu markaðsstarfi. Skrifstofur þeirra í Bretlandi og víðar fengju mikið af orðsendingum og tölvupósti þessa efnis. Þá væri mikið fjallað um hvalveiðarnar í bandarískum fjölmiðlum. Þannig væri hann með undir höndum þykka möppu með úrklippum úr bandarískum blöðum þar sem umfjöllunarefnið væri hvalveiðar Íslendinga.
    Aðspurður hvort þeir teldu hættu á að hvalveiðarnar sköðuðu íslenska ferðaþjónustu sagði Guðjón að þeir hefðu áhyggjur af þeim áhrifum sem hvalveiðarnar hefðu í þeim efnum.

Mótmæla vísindaveiðum á hrefnu með tölvupósti.
(Morgunblaðið 26. júní 2004.)


    Tölvupóstur með mótmælum gegn vísindaveiðum Íslendinga á hrefnu streymir til utanríkisráðuneytisins þessa dagana og hafa um 4.000 skeyti borist. Öllum bréfunum er svarað með upplýsingum um stefnu íslenskra stjórnvalda og útskýringum á að hún byggist á sjálfbærri nýtingu allra auðlinda hafsins.
    Frá þessu sagði í kvöldfréttum RÚV en þar sagði að sendingarnar væru skipulagðar af Greenpeace-samtökunum. Á vef þeirra sé hægt að rekja sig af forsíðugrein um hvalveiðar Íslendinga með nokkrum aðgerðum að stöðluðu tölvubréfi, en eftir að nafni heimilisfangi og tölvupóstfangi hefur verið bætt við þarf aðeins að smella á hnapp og þá fer sendingin til utanríkisráðuneytisins í Reykjavík.
    Samskonar herferð átti sér stað í fyrra af hálfu Greenpeace og bárust þá um 50.000 skeyti. Í bréfinu lýsir sendandi ánægju með að Íslendingar ætli að veiða færri hrefnur nú en í fyrra en lýsir því jafnframt yfir að hann hyggist ekki heimsækja Ísland nema sett verði á algjört hvalveiðibann.

Ráða ekki liðsmönnum Greenpeace frá Íslandsferðum vegna hvalveiða.
(Morgunblaðið 9. september 2004.)


    „Greenpeace hefur ekki og mun ekki leggja að nokkrum liðsmanni sínum að heimsækja ekki Ísland vegna hvalveiðanna,“ segir í athugasemd sem Greenpeace-samtökin á Norðurlöndunum sendu frá sér vegna fréttar sænska blaðsins Expressen í dag þar sem segir frá stuðningi Karls Gústafs konungs við vísindaveiðar Íslendinga á hrefnu.
    „Fyrir hönd Greenpeace viljum við undirstrika að ranglega var haft eftir talsmanni okkar í Svíþjóð og ummæli hans varðandi hvalveiðar Íslendinga slitin úr samhengi í Expressen.
    Greenpeace hefur ekki og mun ekki leggja að nokkrum liðsmanni sínum að heimsækja ekki Ísland vegna hvalveiðanna. Samtökin hafa boðið íslensku þjóðinni að hvetja styrktarmenn samtakanna til Íslandsferða skuldbindi Íslendingar sig til að hætta hvalveiðum í atvinnuskyni. Við höfum ekki beðið nokkurn styrktaraðila okkar að taka sér ekki á hendur ferð til Íslands.
    Greenpeace eru andvíg hvalveiðum og hefur um langt árabil krafist þess að öllum hvalveiðum í atvinnuskyni yrði hætt. Þegar Íslendingar tilkynntu í ágúst 2003 að þeir ætluðu að hefja veiðar eftir 14 ára hlé ýtti Greenpeace úr vör átakinu „the Pledge“ til að sýna fram á þann efnahagslega og umhverfisfræðilega ávinning sem Íslendingar gætu náð með því að velja fremur sjálfbæra ferðamennsku í stað hvalveiða. Rúmlega 61.000 manns um heim allan hafa lofað því að íhuga Ísland sem sumarleyfisstað verði veiðunum hætt,“ segir í athugasemdum sem Truls Gulowsen, fulltrúi Greenpeace í Noregi, sendi Fréttavef Morgunblaðsins (mbl.is) í dag.

Ferðamenn hætta við ferðir til Íslands.
(Spiegel 25. ágúst 2003.)


     Reykjavík/Stokkhólmur – Á meðan kjötið af fyrstu veiddu hrefnunum er rifið út hjá kaupmönnum í Reykjavík kvartar íslenski ferðamannaiðnaðurinn yfir því að ferðamenn hætti við ferðir til Íslands. Bandaríkjamenn, Bretar og Frakkar mótmæla nýhöfnum hvalveiðum Íslendinga með því að sniðganga íslenskar vörur.
    Samkvæmt upplýsingum frá fréttaþjónustunni NFI í Reykjavík hafa ferðaskrifstofur fengið tilkynningar frá hópum frá Bretlandi, Bandaríkjunum og Frakklandi um að þeir hafi hætt við ferðir til Íslands eftir að Íslendingar tilkynntu að þeir ætli að hefja hvalveiðar á ný. „Við viljum meina að þetta sé aðeins byrjunin“, segir markaðsstjóri Iceland Travel, Sigrún Sigmundsdóttir.
    Um miðja vikuna höfðu 21 ferðaskrifstofa, þar á meðal stærsta ferðaskrifstofa heims TUI, skrifað til íslensku ríkisstjórnarinnar og skorað á hana að endurskoða ákvörðun sína að veiða 38 hrefnur í vísindaskyni, meðal annars vegna þess að Ísland er einn af bestu stöðunum í heiminum til að fylgjast með hvölum og höfrungum.
    Hvalirnir verða veiddir fyrir miðjan september. Íslenska ríkisstjórnin réttlætir veiðarnar á þessari hættulausu tegund með því að það þurfi að rannsaka fæðuvenjur þessarra spendýra með tilliti til fiskistofna í kringum Ísland. Dýraverndunarsinnar vísa þessum rökum á bug og saka hvalveiðimenn um að vísindalegur tilgangur sé aðeins yfirskin yfir viðskiptalegan áhuga þeirra á að afla sér peninga.
    Sænska ríkisútvarpið sagði frá í fréttum á föstudag að kjötið af fyrsta hvalnum sem veiddur var hafi verið rifið út. Veiðimaðurinn hafði áður afhent Hafrannsóknastofnun hluta af dýrinu til rannsókna.

Hvalveiðar hrekja ferðamenn í burtu.
(Spiegel 1. september 2003.)


    Með því að hefja veiðar á hrefnum í svonefndum vísindalegum tilgangi að nýju gætu Íslendingar verið að knésetja hinn ábótasama og ört vaxandi hluta ferðaþjónustunnar: Hvalaskoðun.
    „Hingað til hefur Ísland, sem hefur upp á óvenju margar tegundir af hvölum að bjóða, verið aðalviðkomustaður hvalaferðamanna frá öllum heiminum – og á hverju ári koma fleiri áhugamenn um sjávarspendýr til þess að fylgjast með dýrunum frá skipi. En þessir dýraverndunar- og umhverfissinnuðu gestir gætu látið sig vanta, sérstaklega þegar Ísland, eins og ráðgert er, hefur hvalveiðar í atvinnuskyni árið 2006. Í könnun sem vísindamenn hjá háskólanum í London og Reading gerðu á meðal hvalaskoðenda kom í ljós að 79 prósent aðspurðra voru tilbúnir að sniðganga alveg ferðir til lands sem stundaði hvalveiðar. Þar með myndi stór hluti hvalaferðamennskunnar leggjast af. Í dag gefur hvalaferðamennskan Íslandi ekki aðeins jákvæða ímynd heldur líka árlega 12 milljónir evra (1.070 milljónir ISK). Fagfólk í ferðamannaiðnaðinum var búið að spá því að árið 2006 myndu tekjur af hvalaskoðun vaxa í 20 milljónir evra (1,8 milljarðar ISK).“

Um 75% töldu hvalveiðar ekki skipta máli.

(Morgunblaðið 11. október 2003.)

    Fjórðungur ferðamanna sem fóru í hvalaskoðunarferð á vegum þriggja fyrirtækja í fyrrasumar hefði ekki komið hingað til lands væru hvalveiðar stundaðar við Ísland, en 75% þeirra kváðu slíkt ekki skipta sig máli. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar sem Ferðamálasetur Íslands og Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri kynntu í gær en hún fjallaði um hvalaskoðun, hvalveiðar og ferðamennsku.
    Könnunin var gerð í júlí árið 2002 og náði til íslenskra og útlendra ferðamanna, sem voru í hvalaskoðunarferð hjá þremur fyrirtækjum, Hvalstöðinni, Norðursiglingu og Sæferðum. Alls svöruðu 1.143 ferðamenn spurningalista sem fyrir þá var lagður í upphafi ferðar, en þeir Daníel Guðmundsson og Arnar Guðmundsson höfðu frumkvæði að rannsókninni. Hjördís Sigursteinsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknastofnun, vann úr niðurstöðum og kynnti þær helstu í gær. Ítarleg skýrsla um rannsóknina kemur út í næstu viku. Hjördís sagði mikilvægt að athuga að könnunin var gerð áður en Íslendingar hófu að stunda hvalveiðar sem var nú síðsumars. Hún sagði mjög mikilvægt að svipuð könnun yrði gerð næsta sumar, 2004, til samanburðar.
    Tveir þriðju vissu af banni.
    Þátttakendur voru spurðir hvort þeir hefðu komið til Íslands ef hér væru stundaðar hvalveiðar. Niðurstaðan er sú að 75% þeirra svöruðu já en 25% svöruðu því til að þeir hefðu ekki komið ef svo væri. Þá voru ferðamennirnir spurðir hvort þeir hefðu farið í hvalaskoðunarferð ef hvalveiðar væru stundaðar á Íslandi og í ljós kom að 56% þeirra kváðu svo vera.
Tveir af hverjum þremur vissu af því að hvalveiðibann var í gildi þegar könnunin var gerð í fyrrasumar. Sama hlutfall var uppi á teningnum þegar spurt var hvort fólk áliti að hægt væri að veiða ákveðnar hvalategundir án þess að stofna þeim í hættu. Þá kom einnig fram í könnuninni að 80% svarenda sögðust styðja aðgerðir gegn þjóðum sem veiða hvali.

Grænfriðungar opna íslenskt vefsvæði.
(Morgunblaðið 14. janúar 2004.)

    
    Grænfriðungar hafa opnað íslenskt vefsvæði, www.greenpeace.is, og segjast vona að með því gefist kostur á opinskárri umræðu um hvalveiðar og önnur umhverfismál. Fram kemur á heimasíðunni, að 18.539 manns hafa lýst yfir miklum áhuga á að ferðast til Íslands og vilja fá upplýsingar um ferðaþjónustu á Íslandi ef ríkisstjórnin hættir hvalveiðum.
    Á heimasíðunni kemur einnig fram, að það sé afstaða Grænfriðunga að Ísland ásamt öðrum Norðurlandaþjóðum gegni mikilvægu hlutverki í alþjóðlegu samstarfi um umhverfisvernd í Evrópu, á norðurslóðum og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Er þeim tilmælum beint til íslenskra stjórnvalda að hætta hvalveiðum og nýta þess í stað hvalastofna með hvalaskoðun.
    Ennfremur sé það einlægur vilji Greenpeace að vinna með Íslendingum að öðrum málefnum, þá ekki síst að stöðva loftslagsbreytingar og mengun sjávar, sem skipta höfuðmáli um framtíð lífs á jörðinni eins og við þekkjum það.

Samtök ferðaþjónustunnar mótmæla hvalveiðum.
(Morgunblaðið 1. júní 2004.)


    Samtök ferðaþjónustunnar mótmæla ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að halda áfram hvalveiðum í vísindaskyni hér við land í sumar. Samtökin hafa ítrekað bent á að á helstu markaðssvæðum íslenskrar ferðaþjónustu ríki almenn andstaða við hvalveiðar og er hætta á að ímynd Íslands erlendis skaðist vegna þessara áforma, að því er segir í tilkynningu frá þeim.
    Í tilkynningunni segir að þrátt fyrir að dýrum sem veiða skuli í sumar verði stórfækkað miðað við fyrri áform, þá séu stjórnvöld að taka áhættu með hvalveiðum. Bent hafi verið á að verið sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni þar sem enginn markaður sé fyrir hvalkjöt í heiminum.
    „Vöxtur ferðamanna, sem hafa farið í hvalaskoðun, er ævintýri líkastur. Á tæpum áratug hefur ferðamönnum í hvalaskoðun fjölgað úr tveimur þúsundum 1995 í yfir 70 þúsund 2003. Vaxtarbroddurinn er í ferðaþjónustu en ekki í stækkandi hvalfjalli í frystiklefum,“ að því er segir í tilkynningunni.

Af vef stærsta hvalaskoðunarfyrirtækis á Íslandi.

(Þar kemur fram skoðun fyrirtækisins á ákvörðuninni um hvalveiðar og afleiðingum hennar. Einnig kemur þar fram hver þróun er í viðskiptum fyrirtæksins 2003 og 2004.)


9. janúar 2004.
Árið sem var að líða er hið annasamasta í níu ára rekstrarsögu Norður-Siglingar.
    Félagið hefur ekki áður flutt jafnmarga farþega en þeir urðu vel á tuttugasta og fimmta þúsundið sumarið 2003. Það má ef til vill kalla það kaldhæðni örlaganna að auk þess sem skipinu var haldið til fiskveiða áður fyrr var það einnig notað til hrefnudráps fyrir Norðurlandi. Það er hins vegar liðin tíð og mun ekki breytast þótt sjávarútvegsráðherra hafi heimilað svokallaðar vísindaveiðar á hrefnum þegar langt var liðið á hvalaskoðunarvertíðina.
    Það er ekki ofmælt að sú ákvörðun hafi komið þeim í opna skjöldu sem byggja afkomu sína á hrefnuskoðun og óhætt er að fullyrða að hrefnuveiðarnar ógni hvalaskoðun í landinu og munu trúlega ganga af hvalaskoðun dauðri ef þeim verður haldið til streitu á næstu árum.

25. maí 2004.
Hvalaskoðun fer vel af stað.
    Hvalaskoðun Norður-Siglingar hefur farið vel af stað þetta árið, þ.e.a.s. eftir að norðanhretinu í byrjun mánaðarins slotaði. Líflegt hefur verið í flóanum og gestir, erlendir sem innlendir, ánægðir með ferðirnar.
    Ein ferð er á áætlun út mánuðinn en eitthvað hefur því verið um aukaferðir bæði á morgnana og síðdegis. 1. júní n.k. fjölgar svo ferðum í þrjár á dag og yfir háannatímann eykst svo ferðatíðnin enn og verða sex ferðir í hvalaskoðun á dag auk annnarra ferða.

25. júlí 2004.
Annasamasti dagur Norður-Siglingar frá upphafi.
    Dagurinn í dag var sá annasamasti frá upphafi en 624 farþegar voru fluttir í 13 ferðum fjögurra báta félagsins út á Skjálfanda. Það má gera ráð fyrir að yfir 700 manns hafi því í heildina siglt í hvalaskoðun á Skjálfanda, en annað hvalaskoðunarfyrirtæki er nú einnig starfrækt á Húsavík. Í dag stóð því hvalaskoðunarhöfuðstaðurinn Húsavík vel undir nafni.