Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 676. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1029 —  676. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á áfengislögum, nr. 75 15. júní 1998, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Dómsmálaráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um fyrirkomulag veitingar leyfa til innflutnings, heildsölu eða framleiðslu áfengis í atvinnuskyni.

2. gr.

    2. málsl. 7. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Á eftir 1. málsl. 2. mgr. 8. gr. laganna kemur nýr málsliður er orðast svo: Handhafa innflutningsleyfis er jafnframt heimilt að selja eða afhenda fyrirtækjum áfengi til iðnaðarnota.

4. gr.

    Á eftir 1. málsl. 2. mgr. 9. gr. laganna kemur nýr málsliður er orðast svo: Handhafa heildsöluleyfis er jafnframt heimilt að selja eða afhenda fyrirtækjum áfengi til iðnaðarnota.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu. Með frumvarpinu er lagt til að handhöfum leyfa til innflutnings eða heildsölu áfengis í atvinnuskyni verði heimilt að selja eða afhenda fyrirtækjum áfengi til iðnaðarnota. Jafnframt er lagt til að settur verði skýrari grundvöllur undir heimild dómsmálaráðherra til setningar reglugerðar um fyrirkomulag á veitingu leyfa til innflutnings, heildsölu eða framleiðslu áfengis í atvinnuskyni.
    Samkvæmt áfengislögum er handhöfum leyfa til innflutnings og heildsölu áfengis heimilt að selja eða afhenda áfengi til þeirra sem hafa leyfi til að framleiða, selja eða veita áfengi í atvinnuskyni. Jafnframt er þeim heimilt að selja eða afhenda áfengi úr landi til þeirra sem njóta úrlendisréttar og í tollfrjálsar forðageymslur eða verslanir. Handhöfum framangreindra leyfa er hins vegar ekki heimilt að selja eða afhenda fyrirtækjum áfengi til iðnaðarnota, nema þau falli undir þá sem tilgreindir eru að framan. Hefur þetta sætt talsverðri gagnrýni, en eðlilegt þykir að þeim sem hafa fengið leyfi ríkislögreglustjóra til innflutnings eða heildsölu áfengis verði heimilt að selja eða afhenda það áfengi fyrirtækjum sem hyggjast nota það við iðnaðarframleiðslu. Verður ekki séð að nein rök mæli gegn slíkri heimild, einkum í ljósi þess að handhöfum framangreindra leyfa er nú þegar heimilt að selja eða afhenda áfengi til þeirra sem hafa leyfi til að framleiða áfengi. Ekki þykja efni til að gera greinarmun á þeim aðilum sem framleiða áfengi og þeim aðilum sem nota áfengi til iðnaðarframleiðslu í þessum efnum. Í ljósi þessa er í frumvarpinu lagt til að 8. og 9. gr. áfengislaga verði breytt þannig að handhöfum leyfa til innflutnings og heildsölu áfengis verði heimilt að selja eða afhenda fyrirtækjum áfengi til iðnaðarnota.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. og 2. gr.

    Lagt er til að reglugerðarheimild laganna verði meðal almennra ákvæða í I. kafla laganna. Nýtt ákvæði bætist þannig við 5. gr. laganna um heimild dómsmálaráðherra til að setja reglugerð þar sem kveðið er nánar á um fyrirkomulag veitingar leyfa til innflutnings, heildsölu eða framleiðslu áfengis í atvinnuskyni. Ákvæðið komi í stað reglugerðarheimildar í 7. gr. laganna, sbr. breytingu sem lögð er til í 2. gr. frumvarpsins.

Um 3. og 4. gr.

    Lagt er til að 8. gr. laganna, þar sem fjallað er um leyfi til innflutnings á áfengi, og 9. gr. laganna, þar sem fjallað er um leyfi til heildsölu á áfengi, verði breytt þannig að handhöfum slíkra leyfa verði heimilt að selja eða afhenda fyrirtækjum áfengi til iðnaðarnota. Um röksemdir fyrir þessum greinum vísast til almennra athugasemda.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.




Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum,
nr. 75/1998, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að handhöfum leyfa til innflutnings eða heildsölu áfengis í atvinnuskyni verði heimilt að selja eða afhenda fyrirtækjum áfengi til iðnaðarnota. Jafnframt er lagt til að settur verði skýrari grundvöllur fyrir heimild dómsmálaráðherra til setningar reglugerðar um fyrirkomulag á leyfisveitingum vegna innflutnings, heildsölu eða framleiðslu áfengis í atvinnuskyni. Ekki verður séð að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það að lögum.