Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 707. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1065  —  707. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna:
     a.      3. og 4. málsl. orðast svo: Þá skal félagið greiða Hvalfjarðarstrandarhreppi og Skilmannahreppi fasteignaskatt sem skal vera 0,75% af 6.219 millj. kr. sem er áætlað verðmæti bygginga sem þarf til aukinnar álframleiðslu um 130 þús. lestir, miðað við byggingarvísitölu í desember 2004 (304,8). Þá skal félagið greiða Hvalfjarðarstrandarhreppi og Skilmannahreppi fasteignaskatt sem skal vera 0,75% af 1.007 millj. kr., sem er áætlað verðmæti bygginga sem þarf til aukinnar álframleiðslu um 40 þús. lestir, miðað við byggingarvísitölu í desember 2004 (304,8).
     b.      Í stað orðanna „180 þús. lesta“ í 8. málsl. kemur: 220 þús. lesta.
     c.      Í stað orðanna „240 þús. lesta“ í 9. málsl. kemur: 260 þús. lesta.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 62/1997 var iðnaðarráðherra veitt heimild til að gera samninga fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um álver á Grundartanga. Í 6. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna, svo sem honum var breytt með lögum nr. 12/2000 og 85/2003, er kveðið á um fasteignaskatt og verðmæti bygginga, athafnasvæðis og mannvirkja. Í greininni er byggt á því að áfangaskipting framkvæmda sé sú að í fyrsta áfanga verði árleg framleiðslugeta 60 þús. tonn, hún aukin um 30 þús. tonn í öðrum áfanga, 90 þús. tonn í þriðja áfanga og loks 60 þús. tonn í fjórða áfanga. Því var gert ráð fyrir að heildarframleiðslugeta álversins yrði 240 þús. tonn.
    Í apríl 2004 undirrituðu Norðurál, Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur orkusölusamning vegna stækkunar álversins úr 90 þús. tonnum í 180 þús. tonn. Í nóvember sl. undirrituðu sömu aðilar svo viðbótarsamning um raforkusölu vegna stækkunar Norðuráls á Grundartanga. Samningurinn nær til orkusölu vegna 32 þús. tonna viðbótarstækkunar. Þá standa vonir til að unnt verði að afla viðbótarorku vegna 8 þús. tonna. Þá er í áætlunum Norðuráls nú gert ráð fyrir að í síðasta áfanga verði framleiðslugeta álversins aukin um 40 þús. tonn. Þar með verður heildarframleiðslugeta álversins komin í 260 þús. tonn af áli á ári.
Þessar breytingar á fyrirætlunum fyrirtækisins hafa í för með sér að gera þarf breytingar á ákvæðum heimildarlaganna varðandi álagningargrunn fasteignaskatts fyrir einstaka áfanga. Ekki er nauðsynlegt að breyta öðrum ákvæðum laganna. Breytingarnar eru í samræmi við samning Hvalfjarðarstrandarhrepps, Skilmannahrepps og íslenska ríkisins vegna stofnunar og reksturs álvers á Grundartanga.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 62/1997, um heimild
til samninga um álbræðslu á Grundartanga, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er kveðið á um fasteignaskatt sem Norðuráli ber að greiða Hvalfjarðarstrandarhreppi og Skilamannahreppi.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.