Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 591. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1341  —  591. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Ákvæðin sem þetta lagafrumvarp hefur að geyma er flest að finna í VI. og VII. kafla gildandi samkeppnislaga. Í frumvarpinu er lagt til að verkefni sem lúta að eftirliti með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins verði færð frá samkeppnisyfirvöldum til Neytendastofu. Samhliða þessu frumvarpi eru lögð fram tvö önnur frumvörp, þ.e. frumvarp til nýrra samkeppnislaga og frumvarp til laga um Neytendastofu og talsmann neytenda. Gagnrýni 2. minni hluta á þetta frumvarp lýtur fyrst og fremst að hinu stærra samhengi og er vísað í umfjöllun 2. minni hluta um frumvarp til samkeppnislaga hvað þetta snertir. Annar minni hluti vill vekja athygli á athugasemdum sem bárust efnahags- og viðskiptanefnd frá samtökum launafólks og lúta sérstaklega að mikilvægi þess að vernda börn fyrir óæskilegu áreiti af auglýsingum.
    Full ástæða er til að huga alvarlega að því hvernig hægt er að bæta „auglýsingamenninguna“ í landinu. Í lögum er að finna ýmis ákvæði um auglýsingar og er að sjálfsögðu mikilvægt að eftir þeim sé farið. Það kann ekki góðri lukku að stýra að setja lög sem síðan eru hunsuð af óprúttnum aðilum eins og þekkist nú varðandi auglýsingar á áfengi. Eflaust ræðst auglýsingasiðferði aðeins að hluta til af lögum en fyrst og fremst af vilja manna til að virða þau og vilja framkvæmdarvaldsins til þess að sjá til þess að lögunum sé framfylgt.
    Gagnvart einum hópi þarf löggjafinn að standa sérstakan vörð, með skýrum lögum sem síðan þarf að fylgja vel eftir í framkvæmd. Þessi hópur eru börnin. Að þeim er auglýsingum beint í sívaxandi mæli og börn eru einnig í sívaxandi mæli notuð í auglýsingum. Umboðsmaður barna hefur sett fram það sjónarmið að mikilvægt sé að lögfesta skýrari ákvæði um auglýsingar sem beinast að börnum en þau sem er að finna í núverandi löggjöf. Ákvæði þessa efnis er að finna í 22. gr. gildandi samkeppnislaga og er 8. gr. þessa frumvarps samhljóða henni. Umboðsmaður barna vill að hert sé á þessu lagaákvæði og það gert skýrara. Bæði ASÍ og BSRB taka undir ábendingar umboðsmanns barna hvað þetta varðar í umsögnum sínum um frumvarpið og eru þær birtar sem fylgiskjal með þessu áliti.

Alþingi, 6. maí 2005.



Ögmundur Jónasson,






Fylgiskjal I.


Umsögn frá Alþýðusambandi Íslands
(11. apríl 2005.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Umsögn frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.
(22. apríl 2005.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.