Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 697. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1350  —  697. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl, lögum nr. 97/1987, um vörugjald, og tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Elmar H. Hallgrímsson frá fjármálaráðuneyti, Guðrúnu Þorleifsdóttur frá ríkisskattstjóra, Jón Björn Skúlason frá Íslenskri nýorku, Björn H. Jónsson frá Metan, Ágúst Valfells og Elínu Smáradóttur frá Orkustofnun, Sigríði Á. Andersen frá Verslunarráði og Þorleif Þ. Jónsson frá Samtökum atvinnulífsins.
    Í frumvarpi þessu er lögð til tímabundin lækkun gjalda fyrir innflutning vetnisbifreiða og sérhæfðra varahluta. Það kom fram við umfjöllun nefndarinnar að bifreiðarnar sem um ræðir eru gríðarlega dýrar í framleiðslu og að þær munu þess vegna eingöngu nýtast til tilrauna næstu árin eða áratugina. Tilgangurinn er sá að gera skatta- og tollaumhverfi hér hagstæðara fyrir slíkar tilraunabifreiðar. Auk þess er lagt til að gildandi heimild samkvæmt ákvæði til bráðabirgða X í lögum um virðisaukaskatt, sem fjallar um heimild til endurgreiðslu 2/ 3hluta þess virðisaukaskatts sem greiddur er vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða á tímabilinu 1. september 2000 til 31. desember 2005, verði framlengd til 31. desember 2006.
    Nefndin leggur til tvær breytingar á frumvarpinu:
     1.      Heimilt verði að fella niður eða endurgreiða að fullu virðisaukaskatt af vetnisbifreiðum og sérhæfðum varahlutum í stað 2/ 3hluta svo sem lagt er til í frumvarpinu. Nefndin leggur þessa breytingu til þar sem hún telur mikilvægt að skattaumhverfi hérlendis verði sem hagkvæmast fyrir rannsóknir á þessu sviði svo þær eflist og styrkist. Það kom fram við umfjöllun nefndarinnar um málið að þær tilraunabifreiðar sem um ræðir eru gríðarlega dýrar og ólíklegt að nema örfáar slíkar verði fluttar hingað næstu árin. Tekjumissir ríkisins við þessa breytingu er því óverulegur.
     2.      Nýtt ákvæði bætist við II. kafla frumvarpsins þess efnis að lækkun vörugjalds af bifreiðum með vélar sem nýta metangas eða rafmagn að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu, svokölluðum tvíorkubifreiðum, verði 240.000 kr. en lækkunin er 120.000 kr. samkvæmt gildandi lögum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson og Ögmundur Jónasson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Gunnar Örlygsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.
    Össur Skarphéðinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.


Alþingi, 3. maí 2005.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Birgir Ármannsson.



Gunnar Birgisson.


Jóhanna Sigurðardóttir,


með fyrirvara.


Lúðvík Bergvinsson,


með fyrirvara.



Una María Óskarsdóttir.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.