Norðlingaölduveita

Þriðjudaginn 17. janúar 2006, kl. 13:52:10 (3160)


132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Norðlingaölduveita.

[13:52]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Virðulegi frú forseti. Þjóðin vill ekki fórna Þjórsárverum á altari álæðis ríkisstjórnarinnar. Hæstv. forsætisráðherra sagði ekkert liggja á vegna þess að það lægi ekki fyrir kaupandi. Kannski hefur Alcan eitthvað dregið þetta til baka. Er það forsendan fyrir því hvort við viljum verja Þjórsárver? Þetta finnst mér léleg röksemd hjá hæstv. forsætisráðherra. Við viljum ekki fórna Þjórsárverum fyrir nokkurn mun. Það eru meginrökin.

Skipulagsstofnun og allt matsferlið lagðist gegn Kárahnjúkavirkjun. Ráðherrar og ríkisstjórn tóku þá völdin og sneru við þeim úrskurði og heimiluðu Kárahnjúkavirkjun, sem var reyndar hnoðað í gegnum þingið með stuðningi ríkisstjórnarflokkanna og meginþorra samfylkingarfólks. Nú sjá flestir eftir því eða telja að minnsta kosti að þar hefðu menn átt að hugsa sig betur um.

Nú er farið að hnoðast á Skagfirðingum. Það á að troða álveri upp á Skagfirðinga og Eyfirðinga og Þingeyinga. Það á að láta Þingeyinga fórna Skjálfandafljóti og Aldeyjarfossi, láta Skagfirðinga fórna jökulánum og Héraðsvötnunum, gegn vilja þeirra. Samt er þetta keyrt áfram. Það á að taka alla þessa stefnu upp til skoðunar.

Síðasta mál fyrir jól sem tókst að stöðva var er veita átti iðnaðarráðherra víðtæka heimild til að úthluta að geðþótta rannsókna- og virkjanaleyfum, m.a. í Skagafirði og í Þingeyjarsýslum. Þetta er stefna sem miðar að því að gera Ísland náttúrulaust, eins og var yfirskriftin yfir gríðarlega vel heppnuðum baráttutónleikum ungs fólks á öllum aldri sem vildi breyta um stefnu og ekki gera Ísland náttúrulaust, eins og stefna þessarar ríkisstjórnar leiðir til. Við viljum vernda Þjórsárver.