Norðlingaölduveita

Þriðjudaginn 17. janúar 2006, kl. 14:03:24 (3165)


132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Norðlingaölduveita.

[14:03]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Mér finnst hv. þingmaður gera lítið úr okkar lýðræðislegu stjórnarháttum. Hún talar um að mál séu að þæfast í kerfinu. Við höfum hér á Alþingi samþykkt ákveðið ferli fyrir mál eins og þessi og þingmenn Samfylkingarinnar hafa stutt það mál. Eigum við ekki að halda okkur við þær leikreglur sem við höfum sett okkur sjálf?

Ég spyr hv. þingmann: Það eru margar aðrar framkvæmdir fyrirhugaðar í landinu. Hv. þm. Jón Bjarnason taldi upp margar framkvæmdir sem hann taldi að gætu staðið fyrir dyrum. (Gripið fram í.) Á að skilja það þannig að hv. þingmenn Samfylkingarinnar séu algjörlega sammála Vinstri grænum í þeim efnum? Ég hef miklar efasemdir um það.

Ég tel alveg nauðsynlegt að vanda til vinnubragða og hér hefur verið vandað ferli í gangi. Hv. þingmenn, og þar með taldir hv. þingmenn Samfylkingarinnar, verða að hafa úthald til að fylgja þeim stjórnsýsluháttum sem við höfum samþykkt á Alþingi en berast ekki ávallt með vindinum þegar eitthvert mótlæti kemur upp.