Gögn með frumvarpi um Ríkisútvarpið

Miðvikudaginn 18. janúar 2006, kl. 12:04:16 (3211)


132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Gögn með frumvarpi um Ríkisútvarpið.

[12:04]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þá ósk eða kröfu hv. þm. Marðar Árnasonar að þessar upplýsingar komi fram enda liggja þær allri málsmeðferð til grundvallar og þeirri meginbreytingu sem varð á frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið frá hæstv. menntamálaráðherra á milli áranna 2005 og 2006. Frumvarpið sem kom fram í fyrra endaði á pólitískum ruslahaugum, svo ófullkomið sem það var, og sérstaklega út af því fyrirkomulagi sem þar var sett fram á rekstrarformi Ríkisútvarpsins sem þá átti að heita einhvers konar sameignarfélag, sameignarfélag sem einn aðili átti að standa á bak við og eiga. Það mál féll um sjálft sig enda náði það aldrei pólitísku flugi. Nú kemur málið fram að nýju þar sem Ríkisútvarpinu er ætlað að vera hlutafélag í eigu ríkisins.

Að þeirri meginbreytingu á málinu liggja þær upplýsingar sem hér er óskað eftir og hefur ítrekað verið óskað eftir í menntamálanefnd í vetur. Þangað bárust þær fréttir að á upplýsingunum væri von, upplýsinganna væri að vænta og þær kæmu, eins og við þingmenn Samfylkingarinnar skildum það, áður en málið kæmi fram á Alþingi.

Nú er málið komið fram á Alþingi og hefur verið boðað sem eitt af fyrstu málum þessa vorþings sem nú er að hefjast. En upplýsingarnar eru ekki komnar fram, upplýsingar sem virðist eiga að halda frá hinu háa Alþingi. Það er algjörlega óboðlegt að ætlast til þess að Alþingi taki afstöðu til þessarar meginbreytingar á rekstrarformi og fyrirkomulagi Ríkisútvarpsins og maður hlýtur að spyrja: Af hverju er þetta óðagot á Ríkisútvarpsfrumvarpinu, af hverju er verið að keyra það í gegn án þess að þessar upplýsingar liggi fyrir? Af hverju er verið að keyra það í gegn áður en margboðuð löggjöf um fjölmiðla, aðra fjölmiðla landsins kemur fram?