Eldsneytisflutningar til Keflavíkurflugvallar

Miðvikudaginn 18. janúar 2006, kl. 12:36:59 (3226)


132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Eldsneytisflutningar til Keflavíkurflugvallar.

261. mál
[12:36]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Hér er hreyft mjög brýnu öryggismáli. Eins og menn vita eru þúsundir tonna af olíu fluttar með tankbílum frá olíubirgðastöðinni í Örfirisey um Reykjavík, Kópavog, Garðabæ, Hafnarfjörð og sem leið liggur suður á Miðnesheiði í viku hverri. Þetta er brýnt öryggismál og hefur m.a. komið fram hjá bæjarstjórninni í Hafnarfirði ósk um það til samgönguyfirvalda að fram fari ný áhættugreining á þessum flutningum. Það dugar ekki að stóla á áhættugreiningu sem gerð var fyrir fimm eða sex árum af hagsmunaaðilum. Yfirvöld sjálf verða að gera áhættugreiningu og til þess þarf líklega samstarf samgönguráðuneytis, umhverfisráðuneytis og utanríkisráðuneytis til þess síðan að ná þeim samningum sem við þurfum að ná til að geta skipað upp í Helguvík.