Eldsneytisflutningar til Keflavíkurflugvallar

Miðvikudaginn 18. janúar 2006, kl. 12:38:05 (3227)


132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Eldsneytisflutningar til Keflavíkurflugvallar.

261. mál
[12:38]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að fagna því að mjög breið samstaða virðist vera um það meðal þingmanna úr öllum flokkum að ástandið eins og það er í dag sé í rauninni alveg fáránlegt og algerlega óviðunandi. Það eru ekki aðeins þessir miklu flutningar um Reykjanesbraut heldur líka það að við erum með gríðarlega stóra olíu- og bensínbirgðastöð. Olíu- og bensínbirgðastöð allra landsmanna er nánast í miðborg Reykjavíkur. Maður hlýtur að velta því fyrir sér með miklum ugg hvað mundi gerast ef þarna yrði slys, ef þarna kæmi upp eldur. Jafnvel að árás yrði gerð á þessa stöð. Maður veit náttúrlega aldrei. Og hversu stórt svæði yrði þá að rýma í Reykjavík ef vindáttir væru óhagstæðar og annað þess háttar. Við munum öll greinilega eftir því þegar bruninn mikli varð í Hringrás fyrir rúmu ári og hvaða hættuástand skapaðist þar.

Mér finnst svolítið undarlegt að heyra svör hæstv. samgönguráðherra, því að þó að fram komi mjög skýrt hjá honum að hann sjái alveg í hendi sér að staðan eins og hún er í dag sé alveg fáránleg, þá skuli hann vísa á utanríkisráðuneytið. Ég tel að þetta sé í rauninni verkefni allrar ríkisstjórnarinnar og skiptir engu máli hvaða ráðuneyti þar á í hlut. Hér er um svo augljóst þjóðþrifamál að ræða, að þessari olíu verði skipað upp og þá sérstaklega flugvélaeldsneytinu og reyndar hinu gjarnan líka í Helguvík þar sem aðstaðan er fyrir hendi, að ríkisstjórnin ætti að beita sér fyrir því í viðræðum við ameríska herinn eða NATO að við Íslendingar fáum að nota þessa aðstöðu í þeim mæli sem við svo sannarlega þurfum að gera.