Afleysingar presta

Miðvikudaginn 18. janúar 2006, kl. 15:35:45 (3308)


132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Afleysingar presta.

308. mál
[15:35]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég kýs að svara 1. og 2. spurningu saman. Árið 2001 voru átta prestar við afleysingaþjónustu, þar af einn tvisvar, þrír leystu af vegna ólaunaðs leyfis, tveir vegna námsleyfis, einn vegna fæðingarorlofs, tveir vegna veikinda, einn vegna prestleysis.

Árið 2002 voru átta prestar í afleysingaþjónsutu, þar af einn tvisvar, fjórir leystu af vegna ólaunaðs leyfis, einn vegna veikindaleyfis, tveir vegna námsleyfa og tveir vegna fæðingarorlofs. Einn af þessum prestum leysti einnig af vegna prestleysis.

Árið 2003 voru 12 prestar í afleysingaþjónustu, fimm leystu af vegna ólaunaðs leyfis, tveir vegna námsleyfa, þrír vegna veikindaleyfa, einn vegna fæðingarorlofs og einn vegna orlofs.

Árið 2004 voru 16 prestar í afleysingaþjónsutu. Þrír leystu af vegna ólaunaðs leyfis, tveir vegna námsleyfa, fjórir vegna fæðingarorlofs, fjórir vegna veikindaorlofs, einn vegna orlofs og tveir vegna prestleysis.

Árið 2005 voru 11 prestar í afleysingaþjónustu og þrír voru tvisvar í afleysingu, einn leysti af vegna veikindaorlofs, fjórir vegna námsleyfa, fimm vegna fæðingarorlofs, einn vegna orlofs og þrír vegna prestleysis.

Spurt er í þriðja lagi:

„Er haldin skrá yfir afleysingar presta hvers fyrir annan? Ef svo er, hver heldur þá skrá?“

Biskupsembættið heldur ekki sérstaka skrá fyrir afleysingar presta en í skjalasafni embættisins er unnt að fletta upp öllum afleysingum. Prófastar skipuleggja afleysingar vegna orlofs hver í sínu prófastsdæmi.

Þá er spurt:

„Hvað ræður því hvort sérstakur afleysingaprestur er ráðinn til starfa eða annar starfandi prestur tekur að sér afleysingu, samanber fastar greiðslur til allra presta vegna afleysinga í sumarleyfum og á vikulegum frídögum?“

Launagreiðslur til presta vegna afleysinga í sumarleyfum greidd sem 60% laun og vegna vikulegs frídags greidd sem 100% laun eru ákveðin af kjaranefnd. Á síðasta ári voru þessar sérstöku launagreiðslur afnumdar og teknar inn í launagrunninn. Biskupsstofa setur ekki presta í sumarafleysingum eins og að ofan greinir heldur einungis þegar um er að ræða tilfallandi leyfi, svo sem vegna náms, fæðingar barns, veikinda eða þegar óskað er eftir launalausu leyfi. Fastagreiðslur til presta vegna sumarafleysinga og vikulegs frídags eru ekkert tengdar afleysingum af öðrum sökum.

Það sem fyrst og fremst ræður fyrirkomulagi afleysingar er stærð prestakallsins og síðan lengd afleysingarinnar. Sem dæmi má nefna að þegar prestar fara í níu mánaða námsleyfi eru yfirleitt settir sérstakir prestar í afleysingu hvort sem um er að ræða lítið prestakall eða stórt og oftast er auglýst eftir fólki þegar um níu mánaða námsleyfin er að ræða. Vegna styttri leyfa eru það yfirleitt nágrannaprestar sem sinna þjónustu ásamt eigin kalli ef unnt er að koma því við. Þó þekkist að prestar séu settir sérstaklega í afleysingar vegna styttri leyfa og yfirleitt er settur sérstakur prestur til afleysinga í stóru prestakalli þó að afleysingin sé til skamms tíma.

Þegar prestur er settur til að leysa af annan prest fær hann greidd full laun og embættiskostnað ef hann gegnir ekki jafnframt öðru embætti. Ef prestur leysir af í svokallaðri nágrannaþjónustu fær hann til viðbótar við sín reglulegu laun greidd hálf laun og hálfan embættiskostnað til viðbótar.