Afleysingar presta

Miðvikudaginn 18. janúar 2006, kl. 15:39:23 (3309)


132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Afleysingar presta.

308. mál
[15:39]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fróðlegt og yfirgripsmikið svar. Það leiðir m.a. í ljós að stígandi hefur verið í því að prestar hafi verið ráðnir sérstaklega til afleysinga undanfarin fimm ár, að vísu aðeins lækkað aftur árið 2005 en fram að því hefur verið talsverður stígandi, það eru því nokkrir tugir presta sem hafa verið í afleysingum undanfarin fimm ár.

Þessi fyrirspurn er sett fram vegna þess að mér hefur oft orðið til umhugsunar skipulag prestsembætta á Íslandi. Nú hefur dómsmálaráðherra tekið sér fyrir hendur að endurskipuleggja starfsumhverfi lögregluembætta og skoðun mín er sú að ekki sé síður ástæða til að líta til skipulagsins á prestsembættunum og því hversu margir þegnar eru að baki hverjum presti fyrir sig.