Háskólanám sem stundað er í fjarnámi

Miðvikudaginn 18. janúar 2006, kl. 15:44:09 (3311)


132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Háskólanám sem stundað er í fjarnámi.

183. mál
[15:44]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr á þá leið:

„Hyggst ráðherra bregðast við fjárhagslegum vanda fræðslumiðstöðvanna á Suðurlandi, Vesturlandi og á Suðurnesjum sem halda úti háskólanámi í fjarnámi, en allt stefnir í að það leggist af? Ef svo er, hvernig?“

Starfsemi nýju símenntunarmiðstöðvanna á landsbyggðinni hefur aukist jafnt og þétt eins og menn vita á síðustu árum. Miðstöðvarnar voru stofnaðar á árunum 1998–2003 en á því tímabili var gert sérstakt átak til þess að auka markvisst símenntun í landinu. Miðstöðvarnar eru sjálfseignarstofnanir, rétt er að undirstrika það, og rekstur þeirra er því ekki á ábyrgð ríkisins. Stofnaðilar miðstöðvanna eru sveitarfélög, fræðsluaðilar, stéttarfélög, ýmis félagasamtök, stofnanir og fyrirtæki.

Nemendum sem sækja sér þjónustu símenntunarmiðstöðvanna má skipta í þrjá hópa. Í fyrsta lagi þeir sem sækja símenntunarnámskeið til miðstöðvanna. Í öðru lagi þeir sem nýta sér þjónustu símenntunarmiðstöðva vegna fjarnáms við framhaldsskóla og í þriðja lagi þeir sem nýta sér þjónustu símenntunarmiðstöðvanna vegna háskólanáms.

Fjöldi þeirra er nýta sér aðstöðu stöðvanna til fjarnáms á háskólastigi hefur vaxið úr því að vera 44 haustið 2000 í um 670 haustið 2005 og er í algjöru samræmi við þá miklu menntasókn sem við stöndum fyrir og höfum staðið fyrir á síðustu árum og allir eru mjög meðvitaðir um. Þar af, af þessum 670, voru samtals 206 nemar í fjarnámi á háskólastigi hjá stöðvunum á Suðurlandi, Vesturlandi og á Suðurnesjum. Algengt er að hver nemandi ljúki um níu einingum á önn. Menntamálaráðuneytið gerir árlega samning til eins árs í senn við hverja símenntunarmiðstöð á grundvelli fjárveitinga frá Alþingi. Samningur ráðuneytisins við stöðvarnar kveður á um að þær beiti sér m.a. fyrir margs konar námskeiðahaldi, samstarfi menntastofnana og geri almenningi kleift að stunda nám með fjarkennslusniði. Í samningunum er auk þess getið að leggja beri sérstaka áherslu á samstarf við menntastofnanir á framhalds- og háskólastigi.

Á fjárlögum 2005 fær hver stöð 9,9 milljónir. Þeirri fjárhæð er ætlað að standa undir grunnkostnaði við rekstur stöðvanna svo sem húsnæðiskostnaði, rekstri tölvubúnaðar og launum forstöðumanna stöðvanna. Auk þess fær hver stöð um 1,3 millj. kr. til reksturs FS-netsins þannig að hver stöð fær frá Alþingi rúmar 11 milljónir. Allar stöðvarnar fá sömu upphæð og nema greiðslur til þeirra samtals rétt rúmum 100 millj. kr. á fjárlögum þessa árs.

Fyrir háskólanema er stunda nám í fjarkennslu við símenntunarmiðstöðvarnar greiðir menntamálaráðuneytið eftir sömu reglum og greitt er fyrir aðra háskólanema og rennur sú greiðsla beint til viðkomandi háskóla og má því segja að ríkið sé að axla ábyrgð á þeim kostnaði sem fellur til vegna fjarnemanna á háskólastigi því að við erum að greiða fyrir nemana, við gerum það í gegnum háskólastigið. Háskólar hafa hins vegar ekki greitt gjald til símenntunarmiðstöðva vegna þjónustu við fjarnema. Þetta mál hefur verið til skoðunar innan ráðuneytisins og á síðasta ári skilaði nefnd skipuð fulltrúum ráðuneytisins, símenntunarmiðstöðvanna og háskólanna, sem falið var að fjalla sérstaklega um opinberan stuðning við fjarnám utan höfuðborgarsvæðisins, niðurstöðu sinni. Nefndin skoðaði ýmsa möguleika á því hvernig hægt væri að haga stuðningi við símenntunarmiðstöðvar vegna fjarnáms á háskólastigi. Almenn sátt virðist vera um það sjónarmið að bæta eigi aðstöðu fólks á landsbyggðinni til háskólanáms með því að veita tiltekna þjónustu af hálfu símenntunarmiðstöðva. Hafa símenntunarmiðstöðvar fært rök fyrir því að slík framlög verði hækkuð til þess að hægt sé að bjóða þjónustu við háskólanema með byggingu námsvera og annarrar námsaðstöðu.

„Sé litið til framtíðar er það skoðun nefndarinnar“, svo vitnað sé til hennar, með leyfi forseta, „að takmörk séu fyrir því hve langt sé hægt að ganga í slíkri jöfnun aðstöðu út frá byggðasjónarmiðum með því að byggja upp þjónustu vegna háskólanáms. Til lengri tíma litið eigi fagleg sjónarmið háskóla að ráða hversu mikla þjónustu símenntunarmiðstöðvar veita fjarnemum á háskólastigi.“

Stuðningur við uppbyggingu og aðstöðu til háskólanáms á landsbyggðinni hlýtur því að taka mið af stefnu ríkisins, m.a. í byggðamálum hverju sinni. Ríkisstjórnin hefur verið að efla þennan stuðning verulega og má nefna stofnun háskólasetra á Ísafirði og Egilsstöðum í því sambandi, sem hafa verið sérstök tilraunaverkefni á meðal sveitarfélaganna á þeim svæðum, sem og á milli iðnaðar- og menntamálaráðuneytisins. Við erum því að halda áfram að byggja upp tækifæri fyrir landsmenn alla til að stunda háskólanám. Við ætlum að sjálfsögðu að halda því áfram en ég tel rétt að líta sérstaklega til þess hvernig til tekst á Egilsstöðum og Ísafirði og það er engin tilviljun að þeir staðir hafa verið valdir. Það er m.a. og ekki síst vegna þess að fjarlægð þeirra sem þar búa er mun meiri inn á þau svæði sem mest háskólastarfsemi er og þar af leiðandi er nokkuð mikill aðstöðumunur.