Háskólanám sem stundað er í fjarnámi

Miðvikudaginn 18. janúar 2006, kl. 15:49:15 (3312)


132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Háskólanám sem stundað er í fjarnámi.

183. mál
[15:49]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Forstöðumenn símenntunarmiðstöðva eða samtök þeirra sendu fulltrúa sinn á fund menntamálanefndar fyrir áramótin þegar við vorum að vinna að fjárlögum. Það fólk sem til okkar kom bar sig afar illa hvað varðar fjárhagsstöðu símenntunarmiðstöðva og var beinlínis með ákall til menntamálanefndar um að brýn þörf væri á úrbótum. Hæstv. menntamálaráðherra talar á þann veg að hún sé sammála stjórnarandstöðunni á Alþingi og forstöðumönnum símenntunarmiðstöðva um að það sé veruleg bót á jafnrétti til náms þegar við horfum á landsbyggðina andspænis höfuðborgarsvæðinu að hafa þessar símenntunarmiðstöðvar og að þær geti sinnt hlutverki sínu með sóma. Nú bið ég hæstv. menntamálaráðherra að athuga að ef þær fá ekki fjárhagsgrundvöll til að starfa á þá endar þetta í gríðarlegri gjaldtöku af einstaklingunum sem stunda þetta nám. Það má ekki gerast, það yrði dauðadómur.