Háskólanám sem stundað er í fjarnámi

Miðvikudaginn 18. janúar 2006, kl. 15:51:26 (3314)


132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Háskólanám sem stundað er í fjarnámi.

183. mál
[15:51]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta var afleitt svar hjá hæstv. ráðherra og mikil vonbrigði. Hæstv. ráðherra ætlar ekki að svara ákalli frá símenntunarmiðstöðvunum um að bjarga því fjarnámi á háskólastigi sem þar er rekið.

Miðstöðvarnar hafa tvíþætt hlutverk. Annars vegar er það fullorðinsfræðslan og símenntunarþjónustan og hins vegar háskólanám í gegnum fjarnám sem þróast hefur samhliða. Þar er ábyrgð ríkisvaldsins alveg skýr og alveg á hreinu og háskólarnir greiða netunum ekkert fyrir þá þjónustu. Um er að ræða nokkra tugi milljóna á ári sem er ákaflega lítið fé í þessu stóra samhengi en skiptir þessar stöðvar miklu máli — eru allar fjárhæðir heimsins fyrir þeim af því að þær geta ekki haldið úti starfsemi sinni nema ríkið axli ábyrgð sína, komi að rekstri stöðvanna og veiti þeim framlög til að standa undir þessu námi. Hvað varðar aðgang fólks að háskólanáminu skiptir ekki máli hvort um er að ræða 200, 400 eða 500 kílómetra á milli umrædds landsvæðis og höfuðborgarsvæðisins.

Sá hvati sem felst í starfsemi stöðvanna og þjónustu við fjarnám á háskólastigi skiptir sköpum. Tugir ef ekki hundruð Íslendinga fara í háskólanám — fólk sem ekki hefði gert það hefði það þurft að taka sig upp og flytja til Reykjavíkur. Gildir þá einu hvort um er að ræða fólk á Suður- eða Vesturlandi eða fólk lengra í burtu, á Egilsstöðum eða Vestfjörðum. Það skiptir ekki öllu máli.

Nefndin náði ekki samkomulagi um greiðslur fyrir fjarnám á háskólastigi og það er óþolandi staða. Ég skora á hæstv. menntamálaráðherra að bregðast við, taka af skarið og tryggja þessum símenntunarmiðstöðvum, fræðslunetum, þá fjármuni sem þær þurfa á að halda til að halda úti þessari mikilvægu þjónustu hvað varðar fjarnám á háskólastigi. Þessi þjónusta er bylting fyrir byggðirnar og byggðarlögin. Fyrir nokkra tugi milljóna á ári skapast tækifæri fyrir fólk sem þar býr.