Fræðsla í grunn- og framhaldsskólum um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum

Miðvikudaginn 18. janúar 2006, kl. 15:58:51 (3317)


132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Fræðsla í grunn- og framhaldsskólum um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum.

216. mál
[15:58]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir þessa fyrirspurn og tek undir með honum varðandi verkefnið Blátt áfram og það brúðuleikhús sem við sáum bæði í mínum gamla og góða skóla Breiðholtsskóla. Það var greinilegt að sú sýning náði til barnanna því að spurningarnar sem komu fram bentu til þess að leikritið hefði vakið þau til umhugsunar um umhverfið sem slíkt og þá veröld sem við lifum í.

Eins og ég hef áður skýrt frá stendur nú yfir endurskoðun á aðalnámskrám grunn- og framhaldsskóla. Ég hef ákveðið að sérstaklega verði farið yfir kaflann um velferð nemenda í almennum hluta námskránna og einnig námskrá í lífsleikni með tilliti til þess hvernig best er að koma fyrir aukinni áherslu á fræðslu um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Sorgleg dæmi um kynferðislega misnotkun í samfélagi okkar ýta undir mikilvægi þess að hyggja að slíkri fræðslu í tengslum við sem flestar námsgreinar og á öðrum sviðum skólastarfsins, m.a. í starfi nemendaráða, félags- og tómstundastarfi og íþrótta- og æskulýðsstarfi.

Lífsleikni hefur verið skyldunámsgrein í leik-, grunn- og framhaldsskólum frá því að námskrárnar frá 1999, sem enn eru í gildi, voru settar. Markmið lífsleikni er að styrkja einstaklinginn í hvívetna og búa hann undir að takast á við lífið. Lífsleikni er mikilvægur grunnur að því að nemendur verði virkir og ábyrgir þjóðfélagsþegnar. Innan lífsleiknifræðslunnar skapast síðan vettvangur í skólanum til að ræða andfélagslega hegðun og ofbeldi almennt. Þar er að finna markmið sem lúta að sjálfsþekkingu og tilfinningalegum þroska sem eiga að efla persónulegan styrk. Nemendur eiga t.d. að gera sér grein fyrir áhrifum og afleiðingum misbeitingar og neikvæðs áreitis. Einnig er fjallað um merkingu hugtakanna kyn, kynhneigð og kynhlutverk. Lífsleikni styður við aðrar námsgreinar og er kjölfesta í verkefnum af þessu tagi í skólastarfi.

Eins og ég vék að í upphafi er auk fræðslunnar í lífsleikni fjallað sérstaklega um velferð nemenda í almennum hluta aðalnámskrár. Þar er lýst því hlutverki umsjónarkennara og námsráðgjafa að leiðbeina nemendum í námi og starfi og aðstoða þá og ráðleggja um persónuleg mál. Þessum þáttum í aðalnámskrá er ætlað að standa vörð um almenna velferð nemenda, hvort sem það snertir námið sjálft eða andlega og félagslega vellíðan þeirra. Einnig kemur fram að nemendur geta leitað til hvaða starfsmanns skóla sem er með slík mál. Starfsmönnum er skylt að bregðast strax við og á viðeigandi hátt ef upp koma vandamál, t.d. stríðni, einelti eða almenn vanlíðan. Undir þessi ákvæði er unnt að fella viðbrögð við grun um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Hér er um afar viðkvæm mál að ræða sem nálgast þarf af sérstakri nærgætni. Í slíkum tilfellum reynir fyrst og fremst á umsjónarkennara, náms- og félagsráðgjafa og starfsfólk heilsugæslu við skóla. Það er því brýnt að efla fræðslu til þessara aðila og ég tek undir það með hv. þingmanni. Reyndar þarf að efla fræðslu til alls starfsfólks skóla til að það geti fjallað um þessi mál á faglegan hátt og brugðist rétt við.

Virðulegur forseti. Ég vil einnig geta þess að af einstökum verkefnum sem ráðuneytið hefur sérstaklega beitt sér fyrir og snertir velferð nemenda í grunnskólum er einnig rétt að nefna Olweusarverkefnið sem er gegn einelti og andfélagslegu atferli. Verkefnið á uppruna í Noregi og byggist á áratugalöngum rannsóknum og miðast við að skólar komi á kerfi til að takast á við og fyrirbyggja ofbeldi og áföll í nemendahópnum og í skólasamfélaginu. Styrkur verkefnisins felst ekki síst í því að allir starfsmenn skólanna taka þátt í því og fá leiðsögn og fræðslu. Nemendur taka virkan þátt í verkefninu og náið samstarf er haft við foreldra. Þegar eineltismál hafa komið upp í þátttökuskólunum eru þau strax sett í markvissan farveg sem allir starfsmenn skólans þekkja og hafa fengið fræðslu og leiðsögn um. Starfsmenn skólanna geta því tekið mun ákveðnar og af meira öryggi á málum sem upp koma í nánu samstarfi við foreldra. Þetta eftirlitskerfi hefur reynst góð umgjörð og veitt nemendum styrk, ekki síst þeim sem eiga undir högg að sækja. Þjálfun starfsfólks í markvissum vinnubrögðum, eins og gert er í Olweusarverkefninu, opnar leiðir og möguleika innan skóla til að fjalla um mál af þeim toga sem hér um ræðir, þ.e. kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Ég vil sérstaklega geta þess að við höfum náð markvissum árangri, mælanlegum árangri, með Olweusarverkefninu.